Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 18:01:46 (236)

2002-10-04 18:01:46# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[18:01]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska eftir að fjmrh. gæti gengið í salinn eða hlustað á mál mitt. Ég hyggst hefja mál mitt með því að spyrja hann ákveðinna spurninga og er ekki alveg víst, þó hann sé nú töluglöggur og með margt á hreinu, að hann sé með þær upplýsingar við höndina og gæti þá útvegað sér þær meðan ég er að fara yfir seinni hluta þess máls sem ég ætla að ræða hér.

Ég hef í dag hlustað á mikla umræðu um heilbrigðismál og hún er svo sem búin að vera fróðleg og vonandi hafa ýmis mál skýrst í sambandi við þann málaflokk, þannig að ég hafði ekki hugsað mér að fara inn í hann sérstaklega.

Ég sé að hæstv. fjmrh. er mættur í salinn og ég vil þá byrja á því að leggja fyrir hann ákveðnar spurningar.

Hæstv. forseti. Komið hefur fram í máli fólks hér í dag, einkanlega stjórnarliða hygg ég, að heildarskuldir okkar hafi verið að lækka. Mig langar til að bera upp spurningu við fjmrh., og til að vísa til þess sem ég spyr út frá, þá spyr ég út frá töflu 9 í Stefnu og horfum, litlu hefti sem fylgdi fjárlagafrv. Yfirskrift þessarar töflu er Skuldir og kröfur opinberra aðila, og ef við lítum fyrst á efstu línuna, þá sýnist mér að heildarskuldir á verðlagi í lok hvers árs hafi verið rúmir 220 milljarðar árið 1993 og tíu árum síðar, þ.e. núna í áætlun fjárlagafrv., verði heildarskuldirnar um 333 milljarðar, á verðlagi hvers árs. Þetta er aukning um 113 milljarða, hygg ég vera.

Ef við hins vegar förum annars staðar í töfluna, þá kemur fram um raunvirði opinberra skulda á verðlagi ársins 1998 að skuldirnar í upphafi þess tímabils sem þar er sýnt eru rúmir 246 milljarðar, en í lok tímabilsins, þ.e. í áætlun fyrir 2003, 273 milljarðar.

Aðalbreytingin á milli ára núna, það kemur fram í töflunni í þessari síðari tilvitnun, er milli áranna 2001 og 2002. Spurning mín varðandi þessar upplýsingar er borin fram vegna þess að hér hefur verið fullyrt í dag að skuldir hins opinbera hafi lækkað verulega, og spurningin hljóðar svo:

Hversu mikil er lækkunin á milli áranna 2001 og 2002? Hversu mikið af henni má rekja til gengisbreytinga? Skuldirnar lækka um 30 milljarða frá árinu 2001 til áætlunar 2002 og spurningin er sem sagt hversu mikið af þessum 30 milljörðum er gengisbreyting.

Í annan stað langar mig líka til að vita: Hversu mikill hluti af þessari breytingu gæti þá t.d. tengst vaxtalækkun á dollara í Bandaríkjunum? Er hægt að svara því?

Og í þriðja lagi langar mig til að spyrja --- ég hef a.m.k. ekki fundið það í frv. og kann það að vera ókunnugleiki minn --- hvort fjmrh. hafi upplýsingar um hverjir meðalvextir eru af heildarlánum ríkissjóðs. Ég sé á bls. 21 í sama hefti í töflu 1 að vaxtagjöld ríkissjóðs eru 16,6 milljarðar á árinu 2002 samkvæmt áætlun. Mig langar því til að spyrja:

Hverjir eru meðalvextir sem innibera þessa tölu? Hverjir eru meðalvextir okkar á skuldum. Eru þeir 5%, 6% eða eitthvað annað?

Ef fjmrh. hefur ekki þessar upplýsingar þá vonast ég til að hann geti kannski fengið þær einhvers staðar annars staðar frá meðan ég er að fjalla um aðra hluti í máli mínu, herra forseti.

Það sem mig langar að gera sérstaklega að umræðuefni í máli mínu er skattbreytingin eins og mér virðist hún vera í frv. því það kemur fram að tekjuskattur einstaklinga er að vaxa sem hlutfall. Hann hefur vaxið úr 19% árið 2000 upp í rúm 24% eins og gert er ráð fyrir á næsta ári, og í milljörðum er þetta 43 milljarðar á árinu 2000 og upp í 63,6 milljarða í fjárlagafrv. 2003.

Það er alveg ljóst að skattgreiðendum er að fjölga. Við vitum jú líka að gerð var breyting á hátekjuskattsþrepinu og það lækkað úr 7% í 5% sem kemur til framkvæmda á næsta ári, þannig að hátekjuskatturinn lækkar, hátekjuskattur einstaklinga lækkar, ætli það sé ekki um tæpa 2 milljarða sem hátekjuskatturinn lækkar, en tekjuskattur einstaklinga annar en hátekjuskatturinn hækkar verulega á milli ára.

Það kemur fram í blaði sem ég rak augun í og er gefið út af ríkisskattstjóra og heitir Tíund. Með leyfi forseta, langar mig til að vitna þar til ákveðinna staðreynda, en þar er grein um skattamál og álögur á þessu ári. Þar kemur fram að skattgreiðendum sem greiða almennan tekjuskatt hefur fjölgað um 6.900 manns á milli áranna 2001 og 2002. Og tekjuskatts- og útsvarsstofn hefur vaxið um 10,4% en skattleysismörk hækkuðu hins vegar aðeins um 2,6% á sama tíma.

Ég fæ ekki annað lesið út úr þessu, herra forseti, en að ástæður þess að skattbyrðin er að aukast svo mikið á einstaklinga séu ekki bara þær sem hæstv. fjmrh. nefndi hér, að laun hafi hækkað, heldur að verulegur þáttur í þessari tekjuskattshækkun á einstaklinga sé sá að persónuafslátturinn hefur lækkað og ekki haldið raungildi sínu.

Mér sýnist því að það sem hafi gerst, og kemur fram í þessu blaði ríkisskattstjóra, sé að skattgreiðendum hafi fjölgað, það eru sem sagt fleiri aðilar að borga skatt og menn greiða tekjuskatt af tiltölulega lægri tekjum en áður var.

Fjmrh. vék að því í máli sínu að ef persónuafslætti væri breytt um 1.000 krónur þá lækkaði skattbyrði á einstakling um 380 kr. og ef honum væri breytt um 10.000 þá væru það náttúrlega 3.800 kr. og þetta munaði ekki svo miklu fyrir hvern einstakling, en munaði ríkissjóð verulegum fjárhæðum. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. fjmrh. að það munar ríkissjóð verulegum fjármunum. En það munar þann sem hefur lág laun verulegu hvort hann hafi 3.800 kr. meira í ráðstöfunartekjur eða ekki. T.d. á tilboði á kjúklingi þá gæti þetta verið 10 kg af kjúklingi svo eitthvert dæmi sé tekið.

Herra forseti. Ég vonast til þess að fá skýr svör við spurningum mínum og tek aftur til máls ef mér finnst á það vanta.