Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 18:38:31 (247)

2002-10-04 18:38:31# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[18:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er undarlegt hvernig hv. þm. tekst, mér liggur við að segja, að snúa út úr því sem þingmenn Sjálfstfl. hafa verið að segja í dag. Hann hneykslast á því að lagt sé til að einhver einkaaðili reki einhverja starfsemi en skattgreiðendur borgi. Hann vill bara að ríkið reki og skattgreiðendur borgi. Það má ekki leita hagkvæmustu lausna sem hugsanlega gætu falist í því að einhver einkaaðili fengi að reka eitthvað sem ríkið rekur í dag, vegna þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson útilokar þann möguleika fyrir fram að það sé nokkurn tímann hægt að gera eitthvað hagkvæmara heldur en það sem gert er í opinberum rekstri, heyrist mér.

Bandaríski heilbrigðisráðherrann hældi íslenska heilbrigðiskerfinu. Það gerum við líka. Það er gott. Hann tekur undir það með okkur sem höfum verið að halda því fram að hér væri gott heilbrigðiskerfi og það væri ábyrgðarhluti að hallmæla því með þeim hætti sem ýmsir hafa gert og grafa undan því með þeim hætti sem því miður ýmsir hafa tekið þátt í.