Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 18:39:37 (248)

2002-10-04 18:39:37# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[18:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég er að vekja athygli á því að þeir samningar sem ríkisstjórnin hefur gert við einkaaðila eru dýrari og óhagkvæmari fyrir skattborgarana. Ég hef sýnt fram á það með dæmum og með rökum og vísað þar til frv. sem hér er til umræðu. Ég hef tekið um þetta dæmi. Ég er því fylgjandi að leita eftir hagkvæmustu og ódýrustu lausnunum þar við nýtum fjármunina sem allra best.

Varðandi tryggingaþáttinn í heilbrigðiskerfinu sem hæstv. ráðherra segir að bandaríski ráðherrann hafi verið að vara okkur við, þá er það að færast í vöxt hér á landi að tryggingafélög bjóði einstaklingum tryggingar, heilsufarstryggingar, og þá eru kjörin komin undir heilsufari hvers og eins og fjölskyldusögunni. Er hæstv. fjmrh. sammála mér um að það sé varhugavert að við förum inn á slíka braut eða er hann sammála þessum tryggingafyrirtækjum sem eru að bjóða fólki einstaklingsbundnar tryggingar á þennan hátt?