Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 18:40:44 (249)

2002-10-04 18:40:44# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[18:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég held nú ekki að heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna hafi neitt minnst á tryggingamálin. Það var ég sem gerði það áðan. Ég sagði að það væri margt til fyrirmyndar í bandarískum heilbrigðismálum, en það sem væri að þar í landi væri tryggingaþátturinn vegna þess að fólk nýtur ekki trygginga í þeim mæli sem ég tel og við erum öll sammála um að fólk eigi rétt á. (ÖJ: Var ekki ráðherrann að segja að ... hefði verið að vara okkur við þessu?) Ég man ekki til þess að hann hafi nefnt tryggingaþáttinn. Ég er að vara við þessu. Það er ég sem er að vara við því að farin verði sú leið í þessu efni sem hefur tíðkast í Bandaríkjunum.

Ég fagna því ef það er skoðun hv. þm. Ögmundar Jónassonar að fordómalaust beri að skoða alla kosti hverju sinni og velja þann kostinn sem hagkvæmastur er, jafnvel þó að það sé undir þeim formerkjum að ríkið greiði alla þjónustuna, því það teljum við auðvitað og erum sammála um að í flestum tilfellum sé réttlætanlegt. Hver ætlar að fara að kasta gamalmennum hér út á markaðinn upp á þau býti að þau borgi sjálf allan kostnað? Það dettur engum manni í hug. (Gripið fram í.)