Samþjöppun valds og auðs í þjóðfélaginu

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:09:45 (264)

2002-10-07 15:09:45# 128. lþ. 5.2 fundur 145#B samþjöppun valds og auðs í þjóðfélaginu# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir hamingjuóskir þó að ég kjósi að eyða þeim fáu dýrmætu mínútum sem ég hef í annað en þakka fyrir góða afmæliskveðju. Ég fagna því þó að hæstv. forsrh. viðurkenni að hér ríkir fákeppni og hún hefur farið vaxandi í tíð ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Við erum t.d. núna að fara inn í mikla fákeppni og samþjöppun í fjármálalífinu og í bankakerfinu og mér finnst hæstv. forsrh. hafa þar gjörsamlega snúið við blaðinu. Það eru ekki nema nokkur ár síðan hæstv. forsrh. sagði að varðandi eignarhald í bönkum væri æskilegt að ekki væru nema 3--8% í sömu eigu, og hæstv. forsrh. taldi óæskilegt að einn aðili eða skyldir aðilar eignuðust 30--40% í bönkunum. Það er einmitt það sem er að gerast. Og ef hæstv. forsrh. hefur áhyggjur af einokun og samþjöppun á hann auðvitað að bregðast við því sem nú á sér stað varðandi kaup og sölu á bönkunum.