Samþjöppun valds og auðs í þjóðfélaginu

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:10:55 (265)

2002-10-07 15:10:55# 128. lþ. 5.2 fundur 145#B samþjöppun valds og auðs í þjóðfélaginu# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það má til sanns vegar færa að ég hafi nokkuð breytt um afstöðu í þeim efnum sem snúa að dreifingu eignarhluta í fjármálastofnunum, ekki vegna þess að ég hafi ekki talið og telji ekki enn að það sé í sjálfu sér æskilegt ef hægt er að tryggja slíka dreifða eignaraðild. Ég tel í mínu hjarta að það væri æskilegt. En ég hef þóst sjá af reynslunni að slík ákvæði, þótt sett væru, séu í rauninni haldlítil. Þess vegna er betra að hafa fyrirkomulagið gagnsætt og eðlilegt og ekki reyna að setja reglur sem erfitt er að halda uppi.

Samfylkingin hefur vakið athygli á háu matarverði hér sem ég held að sé gott framtak. Ég tel sjálfsagt að við förum ofan í það, sjáum af hvaða rótum það er runnið og skoðum það sameiginlega.