Framlög til þróunarhjálpar

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:14:08 (267)

2002-10-07 15:14:08# 128. lþ. 5.2 fundur 146#B framlög til þróunarhjálpar# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel það afar þakkarvert hvernig landsmenn hafa brugðist við því ákalli sem kom frá Rauða krossi Íslands um helgina vegna hjálparstarfs í Suður-Afríku. Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði að Íslendingar koma mjög að málum í þessum heimshluta og við höfum átt prýðilega samvinnu við Rauða kross Íslands um þessi mál.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram dálitla fjárhæð vegna þessa ástands en þess ber að geta að það er enginn sérstakur fjárlagaliður sem gert er ráð fyrir að komi til þessa málaflokks þannig að það verður ávallt að vera af því litla ráðstöfunarfé sem ríkisstjórnin hefur til almennra mála, og það hefur verið gert.

Við höfum átt í viðræðum við Rauða kross Íslands út af þessu máli. Rauði krossinn hefur m.a. lagt mikla áherslu á sunnanverða Afríku en gert ráð fyrir því að ríkissjóður komi þá að einhverju leyti til hjálpar vegna hjálparstarfs í Palestínu þar sem Rauði krossinn hefur líka lagt mikla áherslu á hjálparstarf. Ég reikna með að ríkisvaldið komi eitthvað til móts við þær óskir.

Á undanförnum árum höfum við í vaxandi mæli smátt og smátt verið að auka framlög okkar til þróunarsamstarfs. Ég geri mér grein fyrir því að þar er á engan hátt fullnægt öllum þörfum. Við höfum hins vegar ákveðið að fara frekar hægt í sakirnar og ég tel að það hafi verið farsælt. Það er ekki nóg að setja meiri og meiri peninga til þessara mála heldur verðum við að vita hvaða verkefni það eru sem við erum að leggja í. Sem betur fer hefur verið hægt að auka þetta lítillega á hverju ári en ég geri mér fulla grein fyrir því að þörfin er gífurleg.