Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:17:50 (269)

2002-10-07 15:17:50# 128. lþ. 5.2 fundur 147#B sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanrrh. varðandi tengsl Íslands og Evrópusambandsins og og áhrif þess á íslenskan sjávarútveg. Eðlilega snýst mikið af þeirri umræðu sem hefur farið fram um mögulega inngöngu Íslands í Evrópusambandið um sjávarútveg. Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta í þeirri grein. Aðild að ESB kemur því vart til greina nema hagsmunir hennar séu tryggðir. Ég held að flestir séu sammála um það.

Ég var sjálfur upphaflega þeirrar skoðunar að aðild kæmi ekki til greina vegna þess að við mundum þá þurfa að afsala okkur yfirráðum yfir auðlindinni. Ég mundi sjálfur aldrei vera reiðubúinn til að mæla með aðild ef það væri niðurstaðan. Ég hef hins vegar farið í gegnum þá texta og þau dæmi sem eru fyrir hendi og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að hin upphaflega skoðun var röng.

Ég tel að margar vísbendingar séu uppi um að sérstaða Íslands yrði metin. Í umræðunni hefur hins vegar alloft komið fram, ekki síst upp á síðkastið hjá ýmsum málsmetandi stjórnmálamönnum, að þeir telji litlar sem engar líkur á því að sérstaða Íslands í sjávarútvegsmálum yrði metin.

Nú er það svo, herra forseti, að líkast til hefur enginn íslenskur stjórnmálamaður, líklega enginn Íslendingur, haft jafnmikil samskipti við Evrópusambandið eðli máls samkvæmt og hæstv. utanrrh. Hann hefur átt viðræður um þessi efni. Það hefur komið fram í viðtölum við hann --- hann sagði það m.a. í viðtali við Stöð 2 fyrir skömmu --- að hann teldi að ákveðin merki væru um það frá Evrópusambandinu að það væri reiðubúið að taka mikið tillit til sérstöðu Íslendinga. Hann sagði reyndar að slíkum skilaboðum hefði verið komið á framfæri við sig. Mér finnst nauðsynlegt að það liggi fyrir í umræðunni með hvaða hætti þessi skilaboð voru og hvers eðlis þau voru og vil því spyrja hæstv. utanrrh.: Hvers eðlis voru þessi skilaboð og í hverju fólust þau?