Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:20:03 (270)

2002-10-07 15:20:03# 128. lþ. 5.2 fundur 147#B sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég hef ekki átt í viðræðum við Evrópusambandið um þessi mál.

Hitt er annað mál að það liggur ljóst fyrir að ef Ísland gengur í Evrópusambandið þá þurfum við að sjálfsögðu að undirgangast sjávarútvegsstefnu þess. Það eru ekki líkur á því að við fáum einhverja undanþágu frá þeirri stefnu.

Hins vegar er ljóst að það er ýmislegt sem hægt er að gera innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Málið snýst um að meta hvort menn telja líklegt að þar fáist niðurstaða sem Íslendingar gætu sætt sig við. Á það getur að sjálfsögðu ekki endanlega reynt nema í samningaviðræðum við Evrópusambandið ef Íslendingar kjósa að sækja þar einhvern tímann um aðild.

Ég hef sagt að um það séu ýmis teikn á lofti að hægt væri að koma ýmsum málum fyrir innan núverandi sjávarútvegsstefnu. Hins vegar er það mjög umfangsmikið mál og flókið og ekki hægt að fara nánar út í það í stuttum fyrirspurnatíma. Ég hef lagt fram ákveðnar hugmyndir á þessu sviði. Þær liggja fyrir á prenti. Ég hef fengið ákveðin viðbrögð við þeim frá vissum aðilum en eins og menn vita er Evrópusambandið samband margra ríkja, 15 ríkja. Þeim fer auk þess fjölgandi. Þess vegna er takmarkað hægt að taka endanlega mark á viðbrögðum ákveðinna aðila. En endanlega getur ekki á það reynt nema í samningaviðræðum við þessi samtök.