Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:45:08 (283)

2002-10-07 15:45:08# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir innlegg hans og þátttöku í umræðunni um matarverðið. En það sem hann kemur inn á, þ.e. markaðir til lægra verðs eða val á vöru vegna gæða vörunnar, hefur ekkert með tillögu mína að gera. Tillaga mín er um það að við látum fara fram könnun á því hvað myndar matarverðið, hvaða hlekkir það eru í samsetningu matarverðs sem eru ólíkir í löndunum fimm, Norðurlöndunum, og hvað veldur því að matarverðið er hæst á Íslandi og í Noregi.

Hann talar um ófagleg vinnubrögð. Ég vil mótmæla því. Þegar ég er að vinna málið þá er eina skýrslan sem til er hjá Hagstofunni norska skýrslan sem unnin er af rannsóknastofnun landbúnaðarins í Noregi. Hún byggir á nákvæmlega sömu tölum og Eurostat sem við erum í samvinnu við um úttektir á þessum málum. Þar er 31 ríki sem gerir samanburð og samanburðurinn er unninn út frá meðaltali í 15 Evrópusambandslöndum. Suður-Evrópa lækkar eflaust þetta meðaltal en Norður-Evrópa með Þýskalandi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Englandi hækkar það eflaust líka. En samanburðurinn er Norðurlönd við meðaltalið.

Ég greindi frá því í framsögu minni, herra forseti, að taflan frá Eurostat með samanburðinum til 2001 hefði komið fram eftir að ég var búin að skila inn málinu. En tilhneigingarnar eru allar þær sömu. Það er ekki grundvallaratriði hvort það er 54% hærra eða 64%. Í nýju tölunum er lægsti munurinn 103 á fiski og gleðilegt ef við höfum náð því niður. Annars erum við með tölur alveg upp í 170 og þar í milli niður í 140 í samanburðartölunum.

Ég greindi líka frá því --- herra forseti, ég vil taka fram að ég er í andsvari, ég er með ræðu síðar, en ég sé það skyndilega hér að tímamælingin er á eins og ég væri að flytja ræðu. Ég held að ég megi bara tala tvisvar sinnum og hef kosið að vera síðasti ræðumaður í þessari umræðu.

(Forseti (HBl): Þá verð ég að biðjast afsökunar á því að hafa ekki veitt því athygli þegar hv. þm. sagði það. En þá hefur hv. þm. lokið ræðutíma sínum.)

Þá hef ég lokið fyrra svarinu en ég hef greint frá niðurstöðum Eurostat í framsögu minni. Þetta er faglega unnið, það er ótvírætt að matur er dýr hjá okkur og tillaga mín er að við finnum hvaða þættir það eru sem hækka matarverð.