Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:48:05 (284)

2002-10-07 15:48:05# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi það hér áðan að í síðustu viku var hreinlega beðið um úrbætur af ræðumönnum sem tóku þátt í umræðunni um hvar við gætum leitað leiða til að ná milliliðakostnaði niður. Og þess vegna sagði ég það áðan í ræðu minni að við skyldum skoða það að fá markaði. Ég nefndi ekki hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur í því sambandi heldur var í umræðunni í síðustu viku spurt og kallað eftir úrbótum. Þess vegna nefni ég þessa markaði. Það er alveg hárrétt, þeir eru ekki nefndir í þáltill.

Markaðir hvers konar, bændamarkaðir, eru mjög þekkt fyrirbrigði í Evrópu og hafa verið reyndir hér og ég tel að við eigum að skoða þá leið.

Varðandi tölur Eurostat þá komst ég einfaldlega yfir þær upplýsingar 2001 sem eru nýjustu tölur og þær sýna nokkru lægri mismun milli Íslands og þessara 15 Evrópulanda og það er mjög gleðilegt. Það eru réttar tölur, það eru tölur frá 2001. Og að tala um að það muni litlu þegar við tölum um á annan tug prósenta, ég er ekki alveg sáttur við það.