Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:49:34 (285)

2002-10-07 15:49:34# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að á síðasta vetri kom fram í svari frá ráðherra Hagstofu að þróun vísitölu á Íslandi samanborið við vísitölu á Norðurlöndum hefði verið mjög óhagstæð. Það varð til þess að ég fór að skoða þessi mál. Töflurnar í greinargerð eru til stuðnings því að nauðsynlegt sé að við gerum úttekt á þessum málum, finnum út hvað veldur háu verði í framleiðslunni --- við vitum að það er ekki hátt verð til framleiðandans í kjötvöruframleiðslu t.d. --- og hvað skapar hátt verð í innflutningi. Og þegar við höfum séð hver er munurinn á Norðurlöndunum á hlekkjunum í þeirri verðlagningu þá getum við gripið til stjórnvaldsaðgerða þar sem það á við.

Síðan er ekkert nema gott um það að segja að hér verði settir á laggirnar markaðir, ég tek undir það með hv. þm. Það hefur bara ekkert með þessa tillögu að gera.

Einnig vil ég geta þess, virðulegi forseti, að matarkönnunin er búin til í þrennu lagi. Það tók þrjú ár að búa hana til og við höfum þrisvar tekið þátt í henni, 1995, 1998 og 2001. Og það er einn þriðji af samanburðinum tekinn á hverju ári og hinir þættirnir eru framreiknaðir. Þetta eru 550 vörueiningar og margar tegundir, þetta er gífurlega umfangsmikill samanburður og miklu umfangsmeiri en þyrfti í raun að vera til að leiða í ljós ákveðnar staðreyndir í þessu máli sem ég er að draga fram.

Ég fagna því mjög að hafa fengið góðar undirtektir, ekki síst hjá forsrh., um að ástæða sé til að skoða samsetningu vöruverðs til að finna þessa hluti út. Sumt getum við lagað í fyllingu tímans þegar við fáum þekkinguna með stjórnvaldsaðgerðum. Að öðru leyti verðum við e.t.v. að styrkja Samkeppnisstofnun til að hún virki eins og henni var ætlað.