Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:04:47 (289)

2002-10-07 16:04:47# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Aðeins út af þessu máli um matvælaverð, um þá þáltill. sem hér liggur fyrir og þá miklu umræðu sem farið hefur fram um hana, vil ég segja að mér finnst það gleymast hvað matvælaverð hefur breyst mikið úti á landi. Með tilkomu stórmarkaða á suðvesturhorninu sem hafa náð verulegri markaðsstöðu þar hafa þeir einnig séð sér hag í því að flytja starfsemi sína út á land, og það er ekki einn heldur fleiri sem hafa gert það. Ég get tekið sem dæmi Samkaup í Reykjanesbæ sem hefur opnað útibú á Ísafirði, á Egilsstöðum og víðar og með því náð niður matarverði. Bónus hefur gert það sama. Hagkaup hefur gert það sama. Þessir stóru markaðir hafa orðið mikil búbót fyrir fólk úti á landi. Ég held að menn megi ekki gleyma því hversu gríðarlega matvælaverð hefur lækkað úti á landi miðað við höfuðborgarsvæðið á allra síðustu árum. Það er fyrst og fremst út af því hvað við höfum getað byggt upp sterkar matvörukeðjur með ýmsum hætti sem hafa haft bolmagn til þess að setja upp alvöruverslanir um allt land. Þær koma að sjálfsögðu í staðinn fyrir kaupfélögin sem hafa lagt upp laupana. Þau gátu samt aldrei haldið niðri því matvælaverði úti á landi sem stórmarkaðirnir hafa getað gert og munur á verði úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu er orðinn sáralítill.

Svo má endalaust velta fyrir sér hvers vegna við höfum ekki sambærilegt matvöruverð á Íslandi og úti í Evrópu þar sem best háttar til. Allar þær niðurgreiðslur sem þar eru hafa komið inn samtímis, sérstaklega á landbúnaðarafurðum og svo að sjálfsögðu einnig í sjávarútveginum þar sem verulegir styrkir hafa áhrif á verð og afkomu útgerða og bænda. Ég held því að mjög erfitt sé að meta þetta svona saman. Reyndar er þessi samanburður í tillögunni gamall og eftir því sem ég get best séð er verið að tala um úttekt sem gerð var fyrir tveimur árum. Síðan er hún framreiknuð með einhverjum vísitölum sem ég er ekki alveg viss um að geti passað inn í myndina þegar verið er að tala um matvöruverð í dag. (Gripið fram í: En saltfiskurinn?)

Ég ætla aftur á móti ekki að efast um að ekki sé hægt að ná meiri árangri í því að lækka matvöruverð á Íslandi, um það getum við öll verið sammála. En ég held að við verðum samt að taka inn í þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir. Við erum eyþjóð. Það verður alltaf dýrara að kaupa vörur hér en í framleiðslulandi, einfaldlega vegna fjarlægðar okkar frá framleiðslulandinu. Og samkeppnin er því miður minni hér en á meginlandi Evrópu, einfaldlega vegna smæðar okkar. Það er ljóst að þeir aðilar sem hafa náð yfirtökum á matvælamarkaðnum hafa aðeins sofið á verðinum, hafa ekki tekið þann sjálfsagða pól í hæðina að takmarka hagnaðinn, skulum við segja.

Ég geri ráð fyrir því að til að menn sjái myndina fyrir sér í réttu ljósi, og við séum að tala um réttar tölur í þessu, verði unnið að því að fá úttekt með þessum samanburði og réttri dagsetningu, úttekt sýnilega öllum þannig að við getum talað um verð dagsins eins og það er í dag en ekki fyrir tveimur árum.