Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:10:02 (290)

2002-10-07 16:10:02# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:10]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið mjög góð. Hins vegar gengur málflutningurinn hjá sumum þingmönnum alveg fram af mér. Það er eins og þeir detti í að reyna að finna það út að ég hafi unnið illa að þessu máli, að upplýsingar í því gefi það til kynna að matvara sé hærri á Íslandi en hún í raun er. Þessu er alveg öfugt farið. Öll mín vinna byggist á upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Grunnurinn og það sem skiptir mestu máli er svar frá hæstv. forsrh., ráðherra Hagstofu, í fyrra sem nær til ársins 2000 þar sem kemur í ljós að frá því að vísitala matvöru var sett á 100 á milli Norðurlanda 1996 hefur matvara á Íslandi hækkað langmest, þ.e. til ársins 2000 í 113,7. Ég óskaði eftir því í haust að Hagstofan skoðaði hvort öðruvísi vísbendingar væru á milli áranna 2000 og 2001 en áranna á undan, hvort von væri til þess að matvaran væri að lækka. Niðurstöðuna fékk ég senda frá Hagstofunni og því miður er það ekki svo. Á meðan Noregur lækkar úr 113,3 í vísitölunni niður í 111,3 hækkum við úr 113,7 upp í 121,5. Þetta er grunnurinn. Ég er búin að lýsa nokkrum sinnum í þessari umræðu að samsetning á samanburðinum í þeim töflum sem ég hef fengið frá Hagstofunni, upp úr skýrslunni sem norska hagstofan vann upp úr sömu tölum og Eurostat vinnur, herra forseti, nær yfir þrjú ár í einu og þess vegna sveiflast örlítið til hvaða matvörur eru teknar fyrir hverju sinni. Ég er búin að útskýra það mjög vel og ég hefði glöð notað tölurnar frá Eurostat máli mínu til stuðnings en það eru ekki tölurnar sem skipta máli heldur úttektin sem við ætlum, vonandi, að gera.