Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:12:14 (291)

2002-10-07 16:12:14# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:12]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt úttektin sem við ætlum vonandi að gera --- ég vona að við sjáum þá einhverja úttekt sem er nær tímanum í dag en tveggja ára gömul úttekt.

Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að þær skoðanir sem hv. þm. vitnar hér í gefi einhverja vísbendingu um að vöruverðið á Íslandi hafi ekki lækkað í takt við það sem hefur þá gerst í Noregi.

Mér finnst samt ekki ástæða til þess að mála skrattann á vegginn og segja að hér sé allt ómögulegt og hér sé vöruverð að fara úr böndunum en alls staðar annars staðar í heiminum sé þetta miklu betra. Þetta er ekki þannig. Og eins og ég sagði áðan hefur vöruverð úti á landi stórlækkað með tilkomu stórmarkaða sem hafa sett upp verslanir sínar í stærstu þéttbýliskjörnum landsins. Vöruverð þar er það sama og hjá þessum stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er algjör bylting úti á landi í vöruverði.

Þessi þróun er augljóslega mjög jákvæð og mér finnst alveg ástæða til að halda því á lofti þegar verið er að tala um matvælaverð almennt. Og ég hef ekki orðið var við að hv. flm. Rannveig Guðmundsdóttir hafi yfirleitt minnst á það.

Við getum öll sameinast um að reyna að lækka vöruverð á Íslandi. Þá er það spurning hvaða aðferðir eru notaðar til þess. Sjálfstfl. hefur beitt sér fyrir því að lækka skatta t.d. á fyrirtæki, tekjuskattar hafa lækkað, sem á að koma út sem lægra vöruverð hjá verslunum.