Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:42:54 (299)

2002-10-07 16:42:54# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að allir þingmenn og landsmenn, ég tala ekki um kaupmenn, vildu hafa sama vöruverð hér og þar sem það er lægst í heiminum. Það vilja allir. Allir reyna að vinna að því marki. En við þurfum ekki að láta segja okkur neitt um hvað hefur mest áhrif á vöruverð. Það eru að sjálfsögðu skattlagning og stærð neytendamarkaðarins. Þetta tvennt hugsa ég að hafi einna mestu áhrifin á hvernig verð þróast. Auðvitað hefur það svo áhrif hvað þarf að flytja mikið af þeirri vöru sem neytt er frá öðrum löndum. Þessir þættir eru augljóslega þannig og markaðurinn er mjög smár. Framleiðsla vörunnar er í allt of mörgum tilfellum ekki á Íslandi. Hv. þm. getur ekki fundið út, þó að við gerðum allt sem við hugsanlega getum til að lækka verðið og þó að við gengjum í Evrópusambandið, að við fáum hér sama verð og best gerist í Evrópusambandinu.

Mér finnst dálítið merkilegt, herra forseti, að heyra hv. þm. tala um að það sé ósæmilegt hjá mér að minna á matarskattinn. Auðvitað er ekkert ósæmilegt við það. Mér finnst ósæmilegra þegar hv. þm. leyfir sér að tala þannig til hæstv. forsrh. að hann sé bara með fýlu og ólund og það sé það eina sem hann geti gert þegar eitthvað sem tengist Evrópusambandinu er til umræðu. Ég skil ekki af hverju hv. þm. leyfir sér yfirleitt að tala með þessum hætti. Mér finnst hv. þingmenn Samfylkingarinnar oft og tíðum leyfa sér að tala mjög óviðurkvæmilega um ráðherra ríkisstjórnarinnar án þess að þeir séu í salnum.