Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:45:18 (300)

2002-10-07 16:45:18# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú erfitt að tala til þeirra eða um þá, hæstv. ráðherrana, vegna þess að þeir eru aldrei í salnum, ekki ef við erum að flytja góð mál. En það er fjarstæða að halda því fram að ég sé bara óánægð með viðtal við hæstv. forsrh. í DV því ég var að enda við að lýsa því yfir að ég væri mjög ánægð með það --- jafnólundarlegt og mér fyndist viðtalið og mér finnst það og mörgum finnst það og talað er um það í öllum heitu pottunum og hvar sem er --- að hann skuli taka undir að skoða eigi vöruverðið. En ég brosi svolítið að því að hann skuli í leiðinni spyrja um hvað Samfylkingin ætli að gera, því það er til þess að vita hvað unnt er að gera sem þetta mál er flutt. Og hann tekur undir það og það finnst mér mest um vert.

Auðvitað er það svo að í verði innfluttrar vöru skipta innkaupin máli, flutningskostnaðurinn og samkeppni í flutningi til frá landinu, sem ekki er nú mjög mikil núna, heildsala og smásala og skattlagning og almennt það umhverfi sem fyrirtækjum er búið. Það má vel vera að það eigi eftir að lagast miðað við það sem þingmennirnir hérna hafa sagt. Framleiðslan er síðan annar þáttur og ég hef þegar rekið það.

Ég hef verið að flytja hér og gert mjög vel grein fyrir því að þetta mál snýst um að kanna hvers vegna vöruverð er hærra, leiða í ljós ólíka þætti og hvað menn eru síðan tilbúnir að gera til að breyta því. Um það snýst málið.

Hins vegar er allur samanburður við Evrópusambandið --- það er alveg ljóst að þau lönd sem hafa gengið til liðs við Evrópusambandið hafa lækkað vöruverð umtalsvert. Það er ljóst að Noregur er með hærra matarverð en Svíþjóð eftir að Svíþjóð gekk í Evrópusambandið. Það er umræða sem kviknar af þessari umræðu. En það er ekki umræðan sem þetta mál snýst um. Og það er ekkert nema gott um það að segja að við höfum opinn huga, ræðum í allar áttir um allt sem getur lotið að því að kanna hvernig við getum bætt lífskjör hér á landi.