Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:51:03 (303)

2002-10-07 16:51:03# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:51]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að blanda mér í umræðuna í örstuttu máli, vegna þess að ég held að hér sé hreyft góðu máli sem við þurfum vissulega að skoða. Sögusagnir fara af því að stórverslanir hafi haft nokkuð hönd í bagga með og áhrif á hvaða vörur komi inn í verslunina og jafnvel notað útilokunaraðferðir þá reynt hefur á í því sambandi og jafnvel stuðlað þannig að óeðlilegu vöruverði.

Ég nefni t.d. kaupmann úti á landi sem nefndi mér dæmi um innlenda framleiðslu sem hann var að gera pöntun á en sagði jafnframt þegar hann var að lýsa því hvers vegna hann ætlaði að hætta að versla sem kaupmaður úti í hinni dreifðu byggð, að þá kom í ljós að varan sem hann var að kaupa og stóð á hlaði framleiðenda í Reykjavík, hann átti þá eftir að borga flutningskostnað og síðan átti eftir að leggjast annar kostnaður á vöruna, var nokkuð dýrari en hún var í hillum hjá Bónusverslunum til dæmis.

Ég tel því að það sé margt sem þurfi að athuga í samþjöppun smásöluverslunar eins og hún hefur orðið nú að undanförnu. Það er full ástæða til þess. Og um leið og hér koma skilaboð frá Alþingi um að eðlilegt og sjálfsagt sé að skoða þetta, þá erum við að styrkja Neytendasamtökin og auðvitað að senda skilaboð til Samkeppnisstofnunar um að þarna sé eitthvað sem eðlilegt og sjálfsagt sé að skoða enn frekar en gert hefur verið.

Hér hafa menn verið að tala um fákeppnina og smæð þjóðarinnar sem hafi veruleg áhrif á vöruverð í samanburði við hin Norðurlöndin og það er eðlilega rétt. Við getum t.d. nefnt sem dæmi að 40 feta gámur í flutningi frá Singapúr til Rotterdam er á svipuðu verði og frá Rotterdam til Reykjavíkur. Þar kemur t.d. hagkvæmni stærðarinnar og stærð skipa sem flytja þetta mikla magn frá Singapúr til Rotterdam.

Ég tek alveg undir að það er eitt og annað sem þarf að skoða, líka þau rök sem hér hafa verið færð fram fyrir þeim verðmuni sem er í ýmsum löndum og jafnvel hefur verið nefndur hér og til tekinn. Það er bara hluti af málinu.

En kjarni málsins er sá sem ég tek hér undir og vildi tjá mig um í örstuttu máli að ég tel að full ástæða sé til að skoða þetta mál til hlítar, vegna þess að það skiptir afar miklu máli fyrir heimilin að hér sé ekki látið viðgangast að menn séu afskiptalausir í smávöruversluninni eins og við höfum séð hana þróast. Og það er umhugsunarefni hvers vegna svo mikil samþjöppun hefur viðgengist á þessum markaði sem raun ber vitni um og sú spurning hlýtur að vakna hvort Samkeppnisstofnun hafi ekki haldið vöku sinni í þessu máli. Ég trúi ekki öðru en að það mál sem hér er flutt muni fá brautargengi á Alþingi.