Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:00:18 (318)

2002-10-08 14:00:18# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Kristján Pálsson hafi ekkert hlustað á þá umræðu sem hér fer fram. Það hefur legið fyrir lengi og það vita allir í þessum þingsal og þjóðin öll að við erum andvíg einkavæðingarferlinu í almannaþjónustunni. En það sem verið er að draga fram hér er í raun byggt á áhyggjum hans eigin flokksmanna og þar með hæstv. forsrh. um að ástæða sé til þess að staldra við og skoða verklagsaðferðir við að framkvæma þá stefnu sem hv. þm. aðhyllist greinilega. Svo einfalt er málið. Það er hæstv. forsrh. sjálfur sem biður um að staldrað sé við vegna þess að hann biður Ríkisendurskoðun um úttekt á málinu. Er þá ekki hv. þm. Kristján Pálsson sammála því að menn eru ekki alls kostar ánægðir með það ferli sem þeir hafa sett af stað? Það gefur augaleið. Það að vera að hártoga þessar umræður út og suður á þessum grunni, virðulegi forseti, er því algjörlega út í hött.

Almenn óánægja er í samfélaginu með hvernig staðið hefur verið að þessum málum. Menn eru hræddir við að við séum að lenda inn í fákeppni. Menn eru hræddir við að örfáir einstaklingar séu að taka til sín þessar ríkiseignir, stundum á hæpnu verði. Þetta vilja menn skoða, þar með stjórnarliðar með hæstv. forsrh. sem verkstjóra. Ég hélt satt að segja að hv. þm. Kristján Pálsson styddi sinn mann dyggilega og ætti þess vegna ekki að koma hér upp í andsvari með útúrsnúninga af því tagi sem hann gerði hér áðan vegna þess að það að nota peninga til annarra verka í samfélaginu er allt annað mál en hér er verið að tala um. Það er verið að tala um að staldra við og skoða leikreglur upp á nýtt sem ég held, eins og ég sagði áðan, að mjög margir í hans flokki séu sammála um að gera.