Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:04:23 (320)

2002-10-08 14:04:23# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur kýs hv. þm. Kristján Pálsson að fara í hártoganir. Ég sagði ekki að hæstv. forsrh. vildi stöðva einkavæðingarferlið. Það er stjórnmálaleg lína flokksins og okkur er hún fullljós. Hins vegar vildum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði koma til hjálpar í þessum málum og leggja fram tillögu sem augljóslega og auðvitað er að okkar skapi vegna þess að við viljum stöðva þetta ferli í almannaþjónustugeiranum og það er öllum fullkunnugt um. (Gripið fram í.) Ja, það væri alla vega hollt fyrir ykkur, virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson grípur fram í. Ég tel að það væri hollt úr því sem komið er, miðað við þá stefnu sem er keyrð, fyrir stjórnina og meiri hlutann í þinginu að staldra við og skoða sinn gang. Um það biður hæstv. forsrh. Ég held að þessi tillaga ætti að virka sem gott innlegg í þessi mál og ég held að þið ættuð öll, hv. þm. stjórnarinnar, að vera fegin því að fá að draga andann í þessum málum og skoða hlutina upp á nýtt.

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að meiri hluti er fyrir því í þinginu að halda áfram að einkavæða almannaþjónustuna sem við viljum ekki gera. Þetta er öllum ljóst, hv. þm. Kristján Pálsson.

En það sem við erum að tala um hér er að stokka upp á nýtt, draga andann þannig að þið getið á sannfærandi hátt brugðið á leik á ný, ef þið haldið lengi til þess meiri hluta, og haldið áfram ykkar pólitík í einkavæðingu á grunni sem er ásættanlegur peningalega séð fyrir þjóðina en ekki þannig að almannaeignir séu færðar upp í hendurnar á örfáum aðilum, almannaþjónustan, fyrir verð sem er ekki ásættanlegt fyrir þjóðina. Við erum andvíg því. Það liggur ljóst fyrir.