Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:11:53 (325)

2002-10-08 14:11:53# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., SvH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:11]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Umræðan vekur að sumu leyti nokkra furðu. Hér virtist hv. 10. þm. Reykv. álíta sem svo að það væri eingöngu afsögn Steingríms Ara Arasonar úr einkavæðingarnefnd sem hefði orsakað þennan tillöguflutning. Ég hygg að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn og gert það að verkum að þetta var flutt enda rakti framsögumaður í ítarlegu máli ótal ótal atriði sem að því hníga að menn verða að spyrna við fótum. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Kristján Pálsson ræddi málið á þeim grundvelli að nauðsyn bæri til að selja eignir ríkisins af því það þyrfti að fá fé til að bora í gegnum fjöll eða annast framkvæmdir úti á landi í samgöngumálum. En er sama við hvaða verði þessar eignir eru seldar? Til dæmis hygg ég að lágmarksverð á sínum tíma fyrir SR-mjöl hefði kannski verið 2.000 millj. kr., 2 milljarðar. Verksmiðjurnar voru seldar fyrir 715 millj. kr. og þó má draga frá því arð sem kaupendur greiddu sjálfum sér út úr fyrirtækinu. Hefði nú ekki verið munur að fá 1.300 millj. meira fyrir verksmiðjuna en fékkst? Hefði ekki verið hægt að leggja fleiri vegi fyrir það úti á landi eða bora lengri göng? Dæmin sem við höfum fyrir augum eru því miður afar ófögur.

Sá sem hér stendur hefur margoft tekið það fram að hann er einkavæðingarsinni. Hann álítur að ríkið eigi ekki að vasast til að mynda í bankastarfsemi og ég hygg að það sé afstaða manna víðast um þjóðlönd nema þar sem allt öðruvísi háttar til um stjórnarfar en við viljum viðhafa og í þeim löndum sem við miðum okkur við. Þannig er um margháttaða starfsemi í landinu að sá sem hér stendur vill að ríkið haldi að sér höndum og feli það einstaklingum og að um þetta geti skapast samkeppni og að markaður fái að ráða. En öllu slíku er varpað fyrir ofurborð af þeim sem stjórna hér ef svo vill verkast. Dæmið um sjávarútvegsmálin er nú t.d. hvað augljósast og þær markaðsaðferðir sem þar eru viðhafðar.

En það er ekki sama hvernig fer úr hendi og skilyrði þess að ég fylgdi einkavæðingu banka var sú yfirlýsing og mörkuð stefna stjórnvalda að salan yrði dreifð, um það yrði sett löggjöf og um þetta voru menn sammála. Það er svo seinna þegar að því kemur að það þarf að fara að ráðstafa þessum eignum meira og minna bak luktum dyrum að það passar ekki inn í munstrið að selja þetta dreift, enda mun það koma á daginn þegar fyrirtækjum eins og Búnaðarbankanum verður ráðstafað.

[14:15]

Ég nefndi dæmið um SR-mjöl. Það var nú svo að ekki var einu sinni gengið að hæsta tilboði í þá eign. Haraldur nokkur í Andra bauð verulega hærri fjárhæð en það þurfti að ráðstafa þessu með öðrum hætti og þess vegna var gengið að verulega lægra tilboði. Engin skýring hefur verið á því gefin hvernig á því stóð.

Þess má geta í sambandi við verðmætið sem þarna lá til grundvallar að í kjölfar þessa var reist síldarverksmiðja, bræðsluverksmiðja á Fáskrúðsfirði. Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í tildrög hennar en þau voru þau að Haraldur í Andra, sem ekki náði fram tilboði sínu, fékk leyfi til þess að flytja inn gamla verksmiðju frá Japan til þess að reisa á Fáskrúðsfirði og hirti 30 milljónir í aðflutningsgjöld þess vegna, þótt hann síðar yrði settur út af sakramentinu á þeim stað. Þessi verksmiðja, sem ekki framleiddi manneldisvöru eins og manneldismjöl, kostaði 990 milljónir í byggingu. Á Seyðisfirði var verksmiðja sem framleiddi manneldisfóður og bygging hennar á þeim tíma hefði farið langt á annan milljarð kr.

Og þá sjá menn nú hvernig salan var úr garði gerð þegar SR-mjöl var selt. Í rabbat fylgdi þá Siglufjörður, Raufarhöfn og Reyðarfjörður. Enda sjá menn hvernig þessu fyrirtæki hefur vaxið fiskur um hrygg og skal ekkert öfundast yfir því. En hér var farið með eignir ríkisins með ótrúlegum hætti. Og það er ótrúlegt að ekki skuli hafa orðið meiri umræða um þessi fádæmi en raun ber vitni.

Og síðan mega menn reikna sér út að Áburðarverksmiðjan hafi gefið Haraldi í Andra eins og kannski 800 milljónir í aðra hönd. Ég held nú að það sé ofreiknað en lágmarkið væri kannski hálfur milljarður. Og hvernig er þá haldið á málum? Hvað blasir við? Starfsemi umræddrar nefndar er eitt forað og fúamýri að sjá, enda haldast jafnvel ekki menn eins og Hreinn Loftsson við í henni.

Að sjálfsögðu ber að samþykkja þessa tillögu og spurning auðvitað hvort ekki ætti að nýta sér 39. gr. stjórnarskrárinnar um að Alþingi kysi sér nefnd, rannsóknarnefnd í þessu skyni. En tillagan er tímabær og ekkert annað ráð takandi en að breyta út af þeirri stefnu sem hér hefur verið fylgt, þessari fádæma gjafapólitík til handa gæðingum sínum sem þeir stunda, hv. stjórnarsinnar.