Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:29:50 (328)

2002-10-08 14:29:50# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér ekki reiður en mér er heitt í hamsi, ég viðurkenni það, mér er mjög heitt í hamsi enda finnst mér ærin ástæða til. Mér finnst það dálítið geðleysi af þingmönnum almennt ef ekki getur lifnað örlítið yfir þeim þegar ræddir eru hlutir af þessu tagi, þegar rædd er framganga stjórnvalda sem er með þvílíkum endemum eins og raun ber vitni, þá finnst mér eðlilegt að blóðið renni aðeins í mönnum og ég veit ekki hvenær það gerir það þá endranær ef hlutir af þessu tagi hreyfa ekkert við þeim. En kannski er það þannig að ríkisstjórnin klúðrar þessum málum svona vegna þess að henni finnst þetta ekkert mál eins og hér kom óbeint fram í ummælum hæstv. viðskrh. Þetta sé ekkert til að æsa sig yfir. Þetta eru smámál. Þetta eru ekki nema milljarðar sem þarna hafa fokið, nokkur kíló af klíkuskap og öðru slíku. Hvað er það á milli vina?

[14:30]

Það sem fer í taugarnar á mér og hefur lengi gert er framgangsmátinn, að byrja að undirbúa jarðveginn með þeim hætti sem raun ber vitni, að rægja niður allan opinberan rekstur, að reyna að koma óorði á hvernig ríki og sveitarfélög, opinberir aðilar eða félagslegur rekstur er gerður til þess að búa til þá fyrirframsannfæringu að það sé alltaf betra að koma hlutunum í hendur einkaaðila og ekki þurfi að rökstyðja það frekar hvað sem í hlut á. Það er ómaklegt og er ekki sanngjarnt.

Það er ekkert sérstaklega á minni könnu þó að Kínverjar séu að einkavæða, hæstv. viðskrh. Ég hef aldrei þangað komið og ekki sótt þangað miklar fyrirmyndir. En ég ætla bara að vona að það gangi betur en í Rússlandi. Þar var efnilega líka einkavætt að vestrænni fyrirmynd samkvæmt ráðgjöf frá Alþjóðabankanum og slíkum aðilum og hvernig gekk það? Jú, örfáum stórspilltum stjórnmálamönnum og undirheimalýð voru afhentar allar eignir hins opinbera í Rússlandi þannig að til varð stétt ,,oligatora`` sem á núna rússnesku stórfyrirtækin og ónefndur maður hefur sagt að samt sé einkavæðingarferlið í Austur-Evrópu sennilega heldur þróaðra en hér. Það eru splunkuný ummæli.