Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:34:16 (330)

2002-10-08 14:34:16# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi róg og óhróður um opinberan rekstur, þá væri hægt að tína þar til ýmislegt, t.d. úr bæklingi einkavæðingarnefndar á sínum tíma, úr greinargerðum með stjórnarfrumvörpum. Ég er ekki að bera það sérstaklega upp á hæstv. núv. iðnrh.- og viðskrh.

Ég man eftir fullyrðingum í greinargerðum stjórnarfrumvarpa aldeilis ótrúlegum þar sem farið var slíkum niðrandi ummælum í raun og veru um allan opinberan og félagslegan rekstur að það var fyrir neðan allar hellur. Ég man reyndar eftir því að menn töldu sig geta sett í greinargerð um hlutafélagavæðingu Rafmagnsveitna ríkisins sem ég komst einhvern tíma í og las yfir, þar var bara fullyrt sisvona að það væri auðvitað miklu betra að gera þetta að hlutafélagi vegna þess að það væri miklu skilvirkari rekstur. Það þurfti ekkert að rökstyðja það. Þetta kalla ég fyrirframsannfæringu þar sem menn horfa algerlega fram hjá því hvers eðlis starfsemin er og í hvaða tilgangi hún er rekin í landinu. Það eru hlutir hér sem eru ekki reknir í grunninn til þess að græða á þeim peninga og hirða þá burtu í eitthvað annað. Það er það sem við köllum almenningsþjónustu og velferðarþjónustu og annað í þeim dúr.

Varðandi bankana og það sem ég hef sérstaklega gagnrýnt og tel tortryggilegt er sú aðferð núna á dögunum, sú nýjasta af nýjum, að setja báða bankana á flot í einu, segja þó að annar þeirra verði bara seldur fyrst en tilkynna að strax verði farið í viðræður við aðra aðila um hinn. Það er mjög tortryggilegt. Það lítur ekki vel út frá markaðslegum ástæðum. Hver er þá ástæðan að þetta er gert? Sá grunur læðist að manni að það sé til þess að í boði sé eitthvað tvennt sem þá er hægt að skipta til helminga, er það ekki? (Gripið fram í.) Það er nú það.

Varðandi þetta allt saman að lokum, herra forseti. Ráðherra segir að það sé unnið samkvæmt ferli. Ég spyr: Hvaða ferli, þegar breytt er um aðferð í hvert einasta sinn? Ég gæti auðvitað og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sagt sem svo að pólitískt mættum við vel við una að ríkisstjórnin hafi staðið með þvílíkum endemum að þessari einkavæðingu, að hún hafi komið á hana slíku óorði að menn eru hættir að þora að gangast við henni, þora ekki að vera í salnum þegar hún er til umræðu.