Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:02:26 (334)

2002-10-08 15:02:26# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi tek ég undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, að það er auðvitað mjög ámælisvert að forsrh. og forsvarsmenn stjórnarflokkanna í þessum málum skuli ekki vera hér við umræðuna þegar í hlut á mál sem beinist með svo hvassri gagnrýni að framgöngu framkvæmdarvaldsins. Svo er um að ræða eitt af forgangsmálum stjórnarandstöðu við upphaf þings og þá er það alveg með ólíkindum að menn skuli láta sig hverfa eins og raun ber vitni.

Hv. þm. lagði lykkju á leið sína hér til að undirstrika að Samfylkingin hefði önnur viðhorf í þessum efnum en Vinstri hreyfingin -- grænt framboð. Það hygg ég rétt vera. Fyrir minn smekk verð ég að segja að mér fannst Samfylkingin vera allt of trúgjörn í þessum einkavæðingarmálum framan af og gagnrýnislaus á framgöngu þessarar ríkisstjórnar, t.d. þegar einkavæðing Landssímans og að hluta til bankanna var á dagskrá. Ágreiningur Samfylkingarinnar við stjórnarflokkana snerist aðallega um það hvernig ætti að gera þetta, ekki hvort ætti að einkavæða. En ég leyfi mér að túlka það svo --- og fagna því --- að Samfylkingin sé að sjá að sér í þessu efni, sé að herðast á móti vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í málinu, og það er vel.

Ég hygg að það sé líka rétt að þegar kemur að undirstöðustofnunum í velferðarkerfinu sé ekki uppi teljandi ágreiningur milli þessara flokka um að þar eigi einkavæðing ekki heima.

En málið er auðvitað algerlega tvíþætt. Það væri æskilegt að menn gætu haldið umræðunni um það hér á þeim grundvelli. Annars vegar er spurningin um það hvað á yfir höfuð að einkavæða. Um það getum við sannarlega verið ósammála. Hins vegar er svo hvernig farið er að því sem gert er. Burt séð frá ágreiningi um það hvort t.d. eigi að selja eða ekki selja eignarhlut ríkisins í banka eða í Landssíma hlýtur að vera gilt að menn ræði hvernig framgangsmátinn þá er að svo miklu leyti sem einkavætt er. Það er kannski að verða að stóra málinu vegna þess hvílíkt reginklúður það allt saman er orðið. Ég held að allir hugsandi menn sjái náttúrlega að það verður að reyna að leiða ríkisstjórnina frá villu síns vegar.