Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:09:03 (337)

2002-10-08 15:09:03# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Um margt erum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sammála. Við erum að flestu leyti sammála í þeim þáttum sem hér eru ræddir varðandi einkavæðingarnefnd, kannski ekki öllum.

Hitt verð ég að segja, herra forseti, að það gleður mig óneitanlega þegar hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon kemur hér upp og vísar til Evrópusambandsins sem fordæmis um góða stjórnsýslu. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að þó að það fyrirbæri sé giska mikið bákn taki það stundum ákveðnum vendingum. Það er þá eins og stórt hafskip, þegar það á annað borð leggur til atlögu við spillingu í eigin ranni verður fátt fyrir. Því miður er stjórnfestan sem við sjáum að eykst í Evrópusambandinu ekki fyrir hendi innan hinnar íslensku stjórnsýslu. Það er auðvitað alveg deginum ljósara að þau mál sem komið hafa upp, stór og smá, í ranni einkavæðingarnefndar hefðu fyrir löngu átt að nægja til þess að ríkisstjórnin skipti um kúrs í málinu.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bendir á hefðu allir skynsamir menn í ríkisstjórn fyrir lifandis löngu séð að hvaða ósi sú á stefndi sem þar flæddi, og yfir alla bakka á köflum. Auðvitað hefðu menn staldrað við, hugsað þetta mál upp á nýtt og sennilega komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að best væri í málinu að fresta frekari sölu og taka ákvarðanir síðar. Ég hefði verið reiðubúinn til þess að taka undir hitt en mun þó kannski hryggja hv. þingmann með því að ég tel að þau mál sem ég er sammála um að eigi að fresta núna hljóti að lenda á borði næstu ríkisstjórnar og þá hljóti menn að taka einhverja ákvörðun um framvindu þess máls. Hv. þm. veit um afstöðu míns flokks í þeim efnum en hvort minn flokkur næði því fram í næstu ríkisstjórn skal ég ósagt láta að þessu sinni. (Gripið fram í: Þú þarft að komast í hana fyrst.)