Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:28:56 (340)

2002-10-08 15:28:56# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. ,,Tugmilljónir í rekstur tómrar sjúkradeildar``, ,,Vandi heilsugæslunnar -- vandi fólksins í landinu``, ,,Rekstrarvandi heilbrigðisstofnana í skoðun``, ,,Engin heilsa án geðheilsu``, ,,Sjúkrastofnanir safna skuldum: Ekki tekið á vandanum``, ,,Kúvending í gjaldtöku ekki á mínu borði. Heilbrigðisráðherra hækkar kostnaðarþátttöku sjúklinga. Segir verðlagsbreytingar á komugjöldum til sérfræðinga til athugunar. Forgangsröðun sem kallað hefur verið eftir er til, segir ráðherra.`` Þetta eru sýnishorn af fyrirsögnum blaða um stöðu heilbrigðismála í dag. Það er ekki alltaf vönduð umfjöllun sem fylgir fyrirsögnunum en sýnir þó að staða heilbrigðiskerfisins er óásættanleg.

[15:30]

Í Læknablaðinu sem kom út í gær eru einnig tvær greinar, vönduð umfjöllun um stöðuna þar sem stefna eða stefnuleysi heilbrigðisyfirvalda og stjórnmálamanna er harðlega gagnrýnt. Fyrirsagnir þeirra segja e.t.v. allt sem segja þarf en þar segir, með leyfi forseta:

,,Heilbrigðisyfirvöld hafa enga stefnu. Barátta heimilislækna snýst um réttindi.`` --- ,,Heilsugæslan í uppnámi. Ríkisendurskoðun auglýsir eftir stefnu en ráðherrann þráast við.``

Allt ber að sama brunni. Það er lýst eftir stefnu stjórnvalda. Það er lýst eftir stefnu stjórnmálamanna. Þar höfum við brugðist. Við höfum brugðist því starfsfólki sem hefur borið uppi góða heilbrigðisþjónustu, reynt að reka hinar ýmsu stofnanir innan heilbrigðiskerfisins án þess að fyrir lægi skýrt skilgreind stefna um það hver á að gegna hvaða hlutverki og hvaða verkefni hver stofnun á að vinna. Og vegna þess að skýrar skilgreiningar vantar byggja allar ákvarðanir um framlög á fjárlögum til þessara stofnana á afar veikum grunni enda sést vel á svörum heilbrrn. við fyrirspurn minni um áætlaðar afkomutölur heilbrigðisstofnana á þessu ári að þar er vandinn stór.

Áætlaður uppsafnaður halli sjúkrastofnana í lok þessa árs nemur rúmlega 2.800 millj., tæpum þrem milljörðum. Það er ekki lítið þegar litið er til þess að í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár er einungis reiknað með 2 milljarða tekjuafgangi ef frá er talin eignasala. Og í frv. er þessum vanda ekki mætt. Áætlanir ráðuneytis gera ráð fyrir að aðeins þrjár sjúkrastofnanir sýni jákvæða rekstrarstöðu, þrjár séu reknar á núlli og allar hinar með neikvæða stöðu ásamt uppsöfnuðum vanda frá fyrra ári. Þessar staðreyndir lágu fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár en samt var þessum stofnunum gert að spara allt að 4%. Tökum dæmi:

Landspítali -- háskólasjúkrahús sem í árslok 2001 var með milljarð í uppsafnaðan vanda fékk 800 millj. kr. minni fjárveitingu á þessu ári en því síðasta auk þess sem ekki komu að fullu til greiðslur vegna gerðra kjarasamninga. Og vegna úrræðaleysis heilbrigðiskerfisins er háskólasjúkrahúsinu gert að sinna verkefnum sem með réttu ættu að vera annars staðar, 10.000--15.000 komum á bráðamóttöku sem heilsugæslan ætti að vera í stakk búin til að taka á móti, 132 langlegusjúklingum sem með réttu ættu að vera á öðrum stofnunum eða heimilum. Og þegar aðrir spítalar í nágrenni höfuðborgarinnar loka deildum til að spara í rekstri eykst álagið á Landspítalann óhjákvæmilega. Hvert á hlutverk Landspítala -- háskólasjúkrahúss að vera?

Hæstv. heilbrrh. sagði í umræðu um fjárlög að rekstrargrunnur sjúkrahússins hefði verið leiðréttur. Hvernig er hægt að leiðrétta rekstrargrunn sjúkrastofnunar án þess að hlutverk hennar hafi verið skýrt skilgreint? Það er að mínu mati algjörlega útilokað. Stjórnendum og starfsfólki sjúkrastofnana verður ekki kennt um neikvæða rekstrarstöðu upp á tæpa þrjá milljarða. Þar er um að kenna skorti á pólitískum vilja til að móta skýra stefnu um hlutverkaskipti innan heilbrigðisþjónustunnar og því að fjárlög ríkisins byggja lítið sem ekkert á framtíðarsýn þar sem stjórnendur búa við eitthvert öryggi varðandi fjárveitingar til lengri tíma en eins árs í senn.

Og vandinn er víðar. Hjá daggjaldastofnunum vantar líklega um einn milljarð, annan í aðra öldrunarþjónustu þar sem biðlistar eftir vistun eru langir og það sama gildir um geðheilbrigðisþjónustuna og aðra sérhæfða læknisþjónustu eins og umræða síðustu daga hefur sýnt. Við erum jafnvel að tala um að 4--5 milljarða vanti inn í kerfið strax í dag. En vandinn, hæstv. heilbrrh., er ekki hvað sístur í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, heilsugæslunni. Í henni er kerfið á höfuðborgarsvæðinu löngu sprungið og getur engan veginn annað því hlutverki sem því er ætlað lögum samkvæmt. Og annars staðar á landinu hafa starfandi heimilislæknar sagt störfum sínum lausum vegna óánægju með kjör sín. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við því að allir starfandi heimilislæknar á Suðurnesjum ætla að hætta störfum 31. október, þ.e. eftir rúmar þrjár vikur? Og hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við því að allir starfandi heimilislæknar í Hafnarfirði hætta störfum 30. nóvember?

Á fleiri stöðum blasa við uppsagnir til viðbótar við það að fjöldi heimilislækna hefur horfið frá störfum á undanförnum árum vegna óánægju með kjör sín og þá vanvirðu sem sérmenntun þeirra er sýnd í samanburði við aðra sérmenntun innan læknastéttarinnar. Þeir sem fara í læknanám taka í æ minnkandi mæli heimilislækningar sem sérgrein vegna þeirrar óánægju sem ríkir með kjör þeirra.

Skipulag heilsugæslunnar hvílir á grunni sem settur var í lög 1973. Þá var reiknað með tvískiptu heilbrigðiskerfi, annars vegar heilsugæslunni sem á að sinna mikilvægri grunnþjónustu og hins vegar þjónustu annarra sérmenntaðra lækna utan sjúkrastofnana. Um þetta kerfi ríkti lengi vel sátt og heilsugæslan virkaði sem sú sía sem hún átti að vera auk þess að sinna grunnþjónustunni innan heilbrigðiskerfisins. En um 1996 riðlaðist þetta kerfi, ríkisvaldið stóð ekki við sinn hluta og grunnþjónustan sem heilsugæslan veitti varð hornreka, ekki lögum samkvæmt heldur í framkvæmd. Aðrir sérfræðingar en heimilislæknar tóku að sinna grunnþjónustunni vegna þess að þeir höfðu fengið nánast opna heimild á ríkissjóð í formi greiðslna fyrir unnin læknisverk á einkareknum stofum úti í bæ, allt undir yfirskyni valfrelsis sjúklingsins, möguleika hans til að meta eigin þarfir. Frá þessum geira læknastéttarinnar hafa ekki heyrst miklar kvartanir enda sýnir skýrsla Ríkisendurskoðunar svart á hvítu að þeir hafa undan engu að kvarta og útgjöld ríkisins vegna þessa hafa vaxið gífurlega auk þess sem sjúklingurinn borgar meira.

Heilsugæslan er mikilvægasta stoð heilbrigðiskerfisins og ég fullyrði að hefði hún fengið að þróast í þá veru sem lög gerðu ráð fyrir byggjum við ekki við þann vanda sem við blasir í heilbrigðiskerfinu í dag. Fjármunir væru betur nýttir og ljóst hver ætti að gera hvað innan þessa kerfis. Það þarf auðvitað að skilgreina hlutverk heilsugæslunnar betur, kostnaðargreina einstaka þætti hennar og byggja hana upp þannig að um öfluga forvörn, læknishjálp og eftirfylgni sé að ræða, að allir eigi greiðan aðgang að henni og hún virki sem sú sía í aðra þætti heilbrigðiskerfisins sem hún á að gera lögum samkvæmt. En því miður virðist ekki vera til staðar vilji né pólitískur kjarkur til að taka á málum. Og þar er ekki við hæstv. ráðherra einan að sakast. Máltækið segir: Hver hefur sinn djöful að draga, og það á við um hann eins og marga aðra.

En ráðuneytið getur þó sýnt þann kjark að hlusta á rök heimilislækna, móta stefnu til framtíðar og fara að gildandi lögum. Lögin segja að hér skuli ríkja tvískipting heilbrigðiskerfisins í frumþjónustu og sérfræðiþjónustu. Á þetta hafa heimilislæknar ítrekað bent og að raunveruleikinn sé annar. Valfrelsi sjúklinga um hvert þeir leita riðlar kerfinu. Ef tvískiptingin á að gilda hlýtur ráðherra að beita sér fyrir því að sía heilsugæslunnar virki og gengið sé út frá tilvísunum. Ef valfrelsið á að gilda eru forsendur brostnar fyrir því að mismuna heimilislæknum í starfskjörum miðað við aðrar stéttir sérfræðinga. Hver er stefna hæstv. ráðherrans og hvað hyggst hann gera?

Það er ljóst að heimilislæknar láta ekki bjóða sér lengur að þeim, einum sérfræðinga, sé boðið upp á að vinna eftir tvískiptu kerfi, að viðræður við þá séu hunsaðar og störfin vanvirt. Því hvað felst annað í því starfsumhverfi sem heilsugæslunni hefur verið búið á síðustu árum?

Ef ekki er farið að lögum um tvískiptingu heilbrigðiskerfisins í frumþjónustu og annarri sérþjónustu eru engar forsendur til staðar til að neita því að heimilislæknar fái að gera gjaldskrársamninga á sama grundvelli og aðrir sérfræðingar. Þá þurfa að koma til gagngerar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Er það vilji ráðherra? Það er nauðsynlegt að fá svör við þeirri spurningu.

Tillaga mín er sú að þegar verði skipaður þverpólitískur starfshópur sem vinni úr þeim gögnum sem þegar liggja fyrir, m.a. skýrslum Ríkisendurskoðunar, um ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar og innan tveggja mánaða skili þessi starfshópur af sér frumtillögum um skipulag heilbrigðisþjónustunnar sem verði teknar hér til umræðu fyrir afgreiðslu fjárlaga. Við höfum allar forsendur til að búa við öflugt vel rekið heilbrigðiskerfi þar sem hlutverk hverrar stofnunar er skýrt skilgreint. Það er kallað eftir skýrri stefnu stjórnvalda í þessum mikilvæga málaflokki.