Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:00:44 (343)

2002-10-08 16:00:44# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Ásta Möller:

Herra forseti. Það eru allar forsendur fyrir hendi til að íslensk heilbrigðisþjónusta haldi stöðu sinni sem ein sú besta í heiminum. Menntunarstig íslenskra heilbrigðisstétta er með því hæsta í heiminum. Á alþjóðlegan mælikvarða standa íslenskir sérfræðingar og vísindamenn í læknisfræði, hjúkrun og tengdum greinum afburðavel svo eftir er tekið í alþjóðlegu vísindasamfélagi.

Óvíða er tækjabúnaður og aðstaða á heilbrigðisstofnunum betri en hér á landi. Almennt er vel búið að sjúklingum og starfsfólki. Fjármagn til heilbrigðismála er með því hæsta sem gerist í heiminum á alla alþjóðlega mælikvarða. Laun heilbrigðisstarfsmanna hafa batnað verulega á síðustu árum. Samt mætti halda af umræðunni að heilbrigðisþjónustan sé í molum. Það er röng lýsing. Almenningur er í grundvallaratriðum ánægður með þá þjónustu sem hann fær í heilbrigðiskerfinu. Hvergi annars staðar vildi hann vera þegar veikindi steðja að.

En er þá allt í himnalagi? Nei, íslensk heilbrigðisþjónusta ber merki um þreytu í skipulagi. Þrátt fyrir gríðarlegar breytingar í samfélaginu, öra þekkingar- og tækniþróun, auknar kröfur og breyttar áherslur í þjónustu, meiri þekkingu og vitund almennings um rétt sinn, hefur grundvallarskipulag þjónustunnar verið óbreytt um áratuga skeið. Ríkisrekstur og fjármögnun þjónustunnar með föstum fjárlögum er hin almenna regla. Þar skera Íslendingar sig úr meðal annarra þjóða. Hvergi í hinum vestræna heimi sér ríkið um svo stóran hluta af rekstri heilbrigðisþjónustunnar. Hvergi er heilbrigðisþjónustan að mestu fjármögnuð með föstum fjárlögum eins og hér er gert. Allar aðrar vestrænar þjóðir hafa farið þá leið að kostnaðargreina þjónustuna og greiða fyrir hana á grundvelli árangurs og unninna verka, hvort sem þjónustan er veitt af ríkisstofnun, félagasamtökum eða einkaaðilum.

Veikleikar skipulagsins láta ekki á sér standa. Stöðug aukning útgjalda, biðlistar, skert aðgengi, minnkuð afköst og óánægja starfsfólks. Sömu veikleikar leiddu til þess að frá því á síðasta áratug eða svo hafa hin Norðurlöndin fylgt breyttri stefnu í heilbrigðismálum og hafa markvisst fært rekstur heilbrigðisstofnana frá ríki til einkaaðila eða félagasamtaka, án þess þó að draga úr ábyrgð ríkisins á fjármögnun þjónustunnar. Fjármögnun og rekstur hafa verið aðskilin. Ríkið greiðir eftir sem áður fyrir þjónustuna, sem byggir á kostnaðarmati á þjónustuþáttum, en samningur er gerður við aðra aðila um reksturinn. Þannig er nú öll heilsugæsla í Danmörku og um 80% af allri heilsugæslu í Noregi rekin af fagfólki á grundvelli einkarekstrar. Á Íslandi er þessu þveröfugt farið. 10% heilsugæslunnar eru rekin á grunni einkarekstrar en 90% eru í ríkisrekstri. Það skyldi þó ekki vera ein ástæðan fyrir vanda heilsugæslunnar í dag?

En þessi leið er ekkert ný fyrir Íslendinga. Um 94% af endurhæfingarstofnunum og um 60% af öldrunarstofnunum eru rekin af öðrum en ríkinu. Ísland stendur hins vegar upp úr þegar sjúkrahúsþjónusta og heilsugæsla eru annars vegar og að mestu rekin af ríkinu.

Sjálfstfl. vill standa fyrir álíka skipulagsbreytingum í heilbrigðisþjónustu og gerðar hafa verið annars staðar á Norðurlöndunum með góðum árangri. Sjálfstfl. vill færa reksturinn í auknum mæli frá ríkinu til einkaaðila eða félagasamtaka en fjármögnunin, tryggingakerfið, verði áfram í höndum ríkisins hér eftir sem hingað til. Heilbrigðisþjónusta er samfélagsþjónusta eins og menntakerfið og félagslega kerfið sem að mestu á að fjármagna af opinberu fé. Sjálfstfl. vill ekki breyta þeirri grundvallarhugsun.

Sá misskilningur hefur verið uppi að hugmyndir Sjálfstfl. leiði til einkavæðingar í þá veru að almannatryggingakerfið verði lagt niður og til verði tvöfalt heilbrigðiskerfi, eitt fyrir þá ríku og annað fyrir þá fátæku, þær feli í sér breytingar í átt að ameríska kerfinu svokallaða og að sjúklingar eigi að taka meiri þátt í greiðslu fyrir þjónustuna. Þessu hefur m.a. stjórnarandstaðan og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson haldið fram og viljað telja almenningi trú um. Slík sjónarmið eru byggð á misskilningi, hvort sem sá misskilningur er vísvitandi eða raunverulegur.

Á nýlegri ráðstefnu var fjallað um breytingar á skipulagi á heilbrigðisþjónustu í Stokkhólmi. Markmið breytinganna var að breyta opinberu heilbrigðiskerfi frá gamaldags miðstýrðu einokunarkerfi stýrðu af stjórnmálamönnum í neytendavænt nútímakerfi sem hvetur til aukinnar framleiðni, svo vitnað sé í orð sænsks fyrirlesara á ráðstefnunni. Ýmsar breytingar hafa orðið á skipulagi heilbrigðisþjónustu í Stokkhólmi í kjölfarið, þar á meðal aukin samkeppni milli þeirra sem veita þjónustuna sem hefur leitt til minni kostnaðar við ákveðna þætti heilbrigðisþjónustunnar. Starfsánægja starfsmanna sem hafa fengið meira frelsi til þess að skipuleggja störf sín hefur aukist. Laun starfsmanna hafa batnað. Gæði þjónustunnar hafa aukist. Framleiðni í heilbrigðisþjónustu hefur aukist um 13% og er meiri en í öðrum sveitarfélögum sem ekki hafa farið í skipulagsbreytingar. Aðgengi hefur batnað. Biðlistar styst. Biðtími eftir þjónustu í Stokkhólmi er styttri en á öðrum svæðum í Svíþjóð.

Að þessu sögðu hlýtur það fyrst og fremst að lýsa skammsýni að útiloka fyrir fram skipulagsbreytingar í átt til aukinnar útvíkkunar verkefna heilbrigðisþjónustu frá ríki til einkaaðila eða félagasamtaka. Vinstri grænir hafa lýst sig andvíga slíkum hugmyndum en það kemur svo sem ekkert á óvart. Öll hugtök sem byrja á forliðnum ,,einka`` eru eitur í þeirra beinum og ekkert frekar um það að segja.

Hins vegar eru skilaboð talsmanna Samfylkingarinnar býsna misvísandi. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrv. heilbrrh., hefur t.d. margoft látið hafa eftir sér að hann sé fylgjandi ýmsum rekstrarformum. Ýmsir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa hins vegar lýst andstöðu við allar slíkar hugmyndir. Um þessar hugmyndir er hins vegar ekki ágreiningur á milli stjórnarflokkanna, þótt stjórnarandstaðan hafi reynt að ala á slíku. Í því efni bendi ég á að hæstv. heilbrrh. hefur margoft lýst því yfir að hann sé hlynntur mismunandi rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu, þar á meðal útboði í heilbrigðisþjónustu, enda er eitt slíkt útboð í undirbúningi um rekstur heilsugæslustöðvar í Kópavogi.

Herra forseti. Það er ákveðin tilhneiging hér á landi að vísa fólki í sérhæfðustu þjónustuna. Heilbrigðisþjónustan er eins og á sem rennur í nokkrum kvíslum. Þegar rennsli í einni kvísl er hindrað rennur vatnið annað. Í heilbrigðisþjónustunni rennur straumurinn til sérhæfðustu þjónustunnar. Þegar vöntun er á hjúkrunarrýmum, eins og er á Reykjavíkursvæðinu, þegar heimahjúkrun er ekki nægilega öflug og sjúkrahús á landsbyggðinni loka vegna sumarleyfa eða manneklu, þegar biðtími eftir viðtali hjá heimilislækni er allt að vika eða 10 dagar og þegar fólk hefur ekki aðgang að einfaldri ráðgjöf og leiðbeiningum, t.d. gegnum símatorg, fær það inni í dýrustu og sérhæfðustu þjónustunni sem er alltaf opin og getur ekki vísað frá sér. Afleiðingin lætur ekki á sér standa: Rekstur dýrustu og sérhæfðustu þjónustunnar vindur jafnt og þétt upp á sig. Þessu þarf að breyta.

Niðurstaða mín er sú að íslensk heilbrigðisþjónusta hafi alla burði til að standast samanburð við hvaða heilbrigðisþjónustu sem er í heiminum og jafnvel vera mælikvarði sem aðrar þjóðir miði sig við. Þá veikleika sem nú eru í þjónustunni má leysa, fyrst og fremst með skipulagsbreytingum.

Herra forseti. Það hefði verið freistandi að ræða frekar um einstaka þætti í heilbrigðisþjónustunni, svo sem vanda heilsugæslunnar, stöðu öldrunarmála á höfuðborgarsvæðinu, vanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss og málefni geðfatlaðra. En tækifærið mun gefast fljótlega ef marka má boðaðar utandagskrárumræður á næstu dögum.