Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:19:28 (346)

2002-10-08 16:19:28# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Í þessari umræðu um heilbrigðismál vil ég byrja á því að leggja áherslu á tvennt: Í fyrsta lagi á að aukin þekking og tækniframfarir gera okkur sífellt kleift að hjálpa fleirum að endurheimta heilsu og bjarga lífi fleira fólks. Í öðru lagi á þá staðreynd að ný og aukin þekking og tækniþróun og hærri lífaldur kallar á stöðugt aukið fjármagn til þessarar þjónustu sem er ein meginstoð íslensks velferðarkerfis.

Vegna þessa er ekki nema eðlilegt að heilbrigðismál beri hátt í opinberri umræðu hér á landi eins og annars staðar og ég spái því, herra forseti, að svo verði áfram um ókomin ár eðli málsins samkvæmt. Vegna þessa finnst mér líka, herra forseti, ekki rétt að tala um vanda eða ástand í heilbrigðismálum. Það eru a.m.k. engar algildar eða endanlegar lausnir til að bregðast við síaukinni þörf fyrir aukið fjármagn og það er sannanlega ekkert eitt rekstrarform sem leysir allan vanda. Við megum ekki í hita leiksins og undanfara kosninga gleyma hagsmunum sjúklinga, fólksins sem þarf á þjónustunni að halda og þarf að geta borið til hennar fullt traust. Við megum heldur ekki gleyma því að sífelld neikvæð og gagnrýnin umræða skapar fjölmörgum og hæfum starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar ekki það vinnuumhverfi sem þjónar sjúklingunum best.

Biðlistar eftir skurðaðgerðum hafa ekki lengst heldur styst. Á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er núna aðeins bið eftir þrenns konar aðgerðum og þar á meðal eru ekki hjartaaðgerðir eða aðrar aðgerðir við lífshættulegum sjúkdómum. Unnið er að því hörðum höndum að leysa brýna þörf fyrir hjúkrunarheimili fyrir aldraða og aðra sem þurfa á þeim að halda í fullu samráði við fulltrúa þeirra. Og, herra forseti, það kjósa ekki allir heilsugæslulæknar að starfa sjálfstætt. Margir, sem því miður minna heyrist frá, vilja starfa á ríkisreknum heilsugæslustöðvum og vilja vera undir kjaranefnd sem úrskurðar um kjör þeirra.

Mér finnst hins vegar sjálfsagt að fram fari mat á gæðum og hagkvæmni þeirrar heilsugæsluþjónustu sem nokkrir heilslugæslulæknar hafa sinnt á grundvelli samninga við Tryggingastofnun ríkisins og sérstaklega verði þá skoðað hvort með því rekstrarformi megi tryggja að sjúklingar, allur almenningur, njóti þeirrar fjölbreyttu þverfaglegu heilsugæsluþjónustu sem við þurfum að geta veitt og þar með talið því forvarnastarfi sem lögð hefur verið mikil áhersla á.

Herra forseti. Samtímis því að við leggjumst á eitt og vinnum að því að tryggja aukin gæði og aukna hagkvæmni heilbrigðisþjónustu þá verðum við að axla ábyrgðina á vinnufriði starfsmanna hennar og annarra sem ábyrgð bera. Alþingi hefur sett stefnu og samþykkt áætlun í heilbrigðismálum með heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem setur þarfir sjúkra, gæði og hagkvæmni í fyrirrúm og þingmenn bera ábyrgðina á nauðsynlegu fjármagni svo að þeim markmiðum verði náð.

Með breytingum sem hið háa Alþingi hefur þegar gert á lögum um heilbrigðisþjónustu og tóku fyrst gildi um síðustu áramót er lögfest ótvíræð heimild ráðherra heilbrigðismála til að marka stefnu og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að fylgja þeirri stefnu, fyllri heimild en ráðherra hafði fyrir til að stjórna því magni sem keypt er af tiltekinni þjónustu með hagkvæmni og gæði hennar að leiðarljósi. Þau kaup þurfa að byggjast á kostnaðargreiningu og að þeirri kostnaðargreiningu er unnið á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og fleiri stöðum.

En vegna tillögu hv. málshefjanda, Margrétar Frímannsdóttur, hér áðan um skipun þverfaglegs starfshóps vil ég fá að benda á að það hljóti að vera á verksviði hv. heilbr.- og trn. að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar.