Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:26:38 (348)

2002-10-08 16:26:38# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), LMR
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá mér við 1. umr. um fjárlög hef ég lengi talið tímabært að endurskoða rekstrarform heilbrigðisþjónustu um land allt, ekki síst með tilliti til rekstrarforma starfsmanna- og kjaramála og aukinnar hagkvæmni og hagræðingar í þjónustunni.

Lög um heilbrigðisþjónustu voru lengi framan af allt of bundin af lagabókstaf. Þau gáfu ekki stjórnendum möguleika til eðlilegrar aðlögunar og sveigjanleika eftir því sem tímar, tækni og eftirspurn breyttist. Á undanförnum árum höfum við einkum og sér í lagi ráðist í breytingar hvað snertir hátækniþjónustu. Má þar fyrst nefna sameiningu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík sem enn sér ekki fyrir endann á, en vonandi mun sú hagræðing skila sér innan fárra ára, bæði í hagkvæmni og í gæðum.

Eðli heilbrigðisþjónustunnar er hins vegar þannig, eins og margoft hefur verið rætt hér í dag og áður, að eftirspurn eftir þjónustu eykst stöðugt og mun svo verða um ókomna framtíð. Eðli heilbrigðisþjónustunnar er hins vegar þannig, eins og líka hefur margoft verið rætt, að eftirspurnin eykst með fjölgun aldraðra og tilkomu þeirrar tækni sem okkur hefur boðist á undanförnum áratugum.

Allir þættir heilbrigðisþjónustunnar eru hins vegar tengdir innbyrðis þannig að ef reynt er að spara eða veita ákveðið aðhald og sjúklingar fá ekki þjónustu þar sem eðlilegast er að leita hennar þá fara þeir annað. Því hefur fólk leitað til sérfræðinga í stað heimilislækna og til heimilislækna þegar þörf fyrir sérfræðinga er augljós. Þetta ástand hefur kallað á óöryggi meðal almennings og það er óbærilegt ástand.

Þessar vikurnar hefur þjónusta heimilislækna verið í brennidepli og engum dylst að skortur er á grunnþjónustu heimilislækna og erfitt að fá heilbrigðisþjónustu jafnskjótt og æskilegt er þegar veikindi ber að. Ég vil eingöngu ítreka, eins og Cato gamli var á sínum tíma vanur að ítreka sínar skoðanir --- ég hef sagt þetta hér nokkrum tugum sinnum í þessari pontu --- þá skoðun mína að undirstaða heilbrigðisþjónustunnar sé að gera nauðsynlega kostnaðargreiningu fyrir hvert þjónustustig ásamt því að efla með öllum ráðum metnað og samanburð til að ná fram þjónustugæðum sem verði sambærileg við heilbrigðiskerfi þeirra þjóða sem við berum okkur saman við.