Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:42:46 (353)

2002-10-08 16:42:46# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Löngu tímabært er að reyna að fá skýr svör við því m.a. hvert eigi að stefna í málefnum heilsugæslunnar og hvort einhver stefna sé yfir höfuð fyrir hendi í þeim málum. Það var sátt lengi framan af en svo er greinilega ekki lengur, án þess þó að tekin hafi verið um það einhver formleg ákvörðun. Þetta hefur allt einhvern veginn gerst hægt og hljótt og enginn náð að sporna við. Og á þá sem á þetta hafa bent hefur ekki verið hlustað, ekki tekið mark á þeim þó að þeir séu sérfræðingar í málefnum heilsugæslunnar. Ég er auðvitað að tala hér um heimilislækna.

Almenn sátt hefur ríkt um tvískiptingu þjónustunnar, þ.e. sem lögin kveða skýrt á um, annars vegar um þá grunnþjónustu sem er auðvitað heilsugæslan, og hins vegar sérfræðiþjónustuna. Nú fljóta þessi mörk og talað er um að lögin séu orðin of gömul, en þá þarf líka að breyta þeim.

Mikill skortur hefur verið á uppbyggingu í heilsugæslunni. Til dæmis er hún ekki alls staðar hér í Reykjavík og það eru enn nokkur hverfi sem ekki hafa hana. Hvert á þá fólk að leita? Það er ekki úr mörgu að velja fyrir þá sem eitthvað amar að og þeir leita auðvitað til annarra sérfræðinga. En ég lít svo á að heimilislækningar séu líka afar mikilvæg sérgrein með mikilsverða þekkingu og nauðsynlegt að búa þeim sömu skilyrði og öðrum til þess að þjóna sjúklingum sínum. Kjaramál heimilislækna eru öllum kunn. Því skyldu þeir vera minna metnir í launum? Þeir eru með langa sérmenntun og hana ber að meta til launa og það þarf að leiðrétta þau að sjálfsögðu í samræmi við aðra.

En það er líka eitt sem á skortir og það er að kostnaðargreina heilsugæsluna en slík kostnaðargreining hefur því miður ekki farið fram. Hvað kosta t.d. mikilvægustu þættir eins og mæðravernd, ungbarnaeftirlit, forvarnir, unglingamóttökur o.s.frv.? Ég þori að veðja að þessir póstar eru ekki eins dýrir og margir halda, að ég tali nú ekki um allt það forvarnagildi sem í slíkri þjónustu er falið í heilsugæslustöðvunum.

Hvernig er áætlað að bregðast við öllum þeim uppsögnum sem nú vofa yfir heilsugæslunni? Þar er stórt vandamál á ferðinni. Hvernig á að manna þessa grunnþjónustu samkvæmt lögum, því að samkvæmt lögum gegnir hún lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu landsmanna? Og hvenær sjáum við svart á hvítu hvar á að byggja upp heilsugæslu sem á skortir, á hve löngum tíma á að gera slíkt og hversu miklum fjármunum á að verja til þeirra verkefna? Þessu er nauðsynlegt að svara með markvissri áætlunargerð sem ætlað er að standi og gera þá þær lagabreytingar sem þarf til að svo megi verða.

Herra forseti. Annað verulegt áhyggjuefni er skortur á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Það er líka heilbrigðisvandamál. Hvernig á að bregðast við ástandinu í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu? Hafa verið gerðar áætlanir til tíu eða fimmtán ára um þörf á uppbyggingu í þeim málaflokki? Eru á borðinu einhver nýmæli í þjónustu við aldraða? Hefur verið gerð könnun á því hvort og þá hvaða þörf er á nýjum úrræðum í þessum málaflokki og hvernig er hægt að styrkja enn frekar sveitarfélög til þess að byggja upp þjónustu við aldraða þar sem verulegur skortur á hjúkrunarrýmum er til staðar?

Verkefnin eru næg og það þarf greinilega að taka til hendinni.