Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:49:15 (355)

2002-10-08 16:49:15# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Nokkuð hefur borið á því í umræðunni að hv. þm. velta því fyrir sér hvort uppi sé vandi eða ekki vandi í heilbrigðisþjónustunni. Mér virðist svo að stjórnendur og starfsmenn telji sig neyðast til að draga saman þjónustu og loka deildum af fjárhagsástæðum og tel því skiljanlegt að þeir telji það vanda. Sjúkir sem bíða eftir aðgerðum eða leguplássi svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir telja það eðlilega vanda.

Á hinn bóginn ber okkur saman um að heilbrigðisþjónusta okkar er með því besta sem gerist í veröldinni en okkur greinir fremur á um leiðir og um verkaskiptingu hins opinbera og annarra í heilbrigðisþjónustunni heldur en hvort vandi er uppi eða ekki, hvort ástandið telst vandasamt eða ekki. En þegar við ræðum það, sem líka má orða sem álitaefni, um viðbragðsflýti eða skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar, þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvort við finnum betri leiðir en þær sem nú eru notaðar.

Í umræðunni hefur verið blandað saman málum heilsugæslulækna og málefnum stóru sjúkrahúsanna sem eru að miklu leyti gjörólík. Heilsugæslan hefur víða verið sameinuð smærri sjúkrahúsum og í náinni framtíð er að vænta ávinnings með sameiginlegri yfirstjórn og sameiginlegu skipulagi heilsugæslunnar og sjúkrastofnana sem einkum þjóna langlegusjúklingum, svo sem sjúkum öldruðum, en eru alls ekki með neina starfsemi á hátæknisviði. Það er þó ekki einhlítt enda um margt gjörólík viðfangsefni þannig að í sumum tilvikum tel ég ekki vera að vænta neins ávinnings af þeirri sameiningu.

Þess verður líka að geta að gagnrýni heilsugæslulækna og kröfur þeirra í kjaramálum stafa að stórum hluta af væntingum þeirra um sambærilega stöðu og réttindi og aðrir sérfræðingar í læknastétt hafa nú þegar. Í því efni skal ég segja þá skoðun mína að ég tel nauðsyn að breyta þeirri afstöðu sem virðist til þessa málefnis og skapa þeim möguleika og rétt til að velja um það eða hafna að starfa að grein sinni á eigin vegum. Ég tel að ákveða þurfi hvaða kröfur beri að gera til lækna sem starfa á eigin stofum í því ljósi að af þeim verði vænst að þeir veiti sambærilega þjónustu, heildarþjónustu, og heilsugæslulæknar á heilsugæslustöðvum við sambærilegu heildarverði. En mér er fyllilega ljóst, herra forseti, að þegar þetta er rætt þá þarf að gera grein fyrir mismun í fjárfestingu lækna sem starfa á eigin vegum og hinna sem starfa á vegum hins opinbera og meta hana til fjár í verði þjónustunnar.

Hjá því verður ekki komist að benda hér á að sá dráttur sem orðið hefur á að byggja og reka hjúkrunarheimili fyrir aldraða í höfuðborginni hefur haft veruleg áhrif á það ástand sem uppi er á hátæknisjúkrahúsum Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Í kosningabaráttunni í sjálfri höfuðborginni var þessi málaflokkur gerður að bitbeini á ósmekklegan hátt án þess að nokkuð kæmi fram til úrlausnar. Á sama tíma voru dýrustu deildir sjúkrahúsanna meira og minna fullar af sjúkum öldruðum og þeim þjónuðu okkar dýrustu læknar og dýrustu hjúkrunarfræðingar sem hefðu betur sinnt biðlistunum.