Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:52:44 (356)

2002-10-08 16:52:44# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:52]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum árum sat hér í ríkisstjórn heilbrrh. sem vildi koma á tilvísunarskyldu þannig að fólk gæti ekki leitað uppi dýrustu sérfræðilækna þegar það fengi kvef eða aðrar umgangspestir heldur þyrfti það að leita fyrst til heimilislæknis og þyrfti að fá tilvísun ef það vildi leita sér aðstoðar sérfræðings. Þetta olli þvílíku fjaðrafoki í þjóðfélaginu að ég minnist varla annars eins. Viðkomandi ráðherra var úthrópaður sem óvinur þjóðarinnar og áróðurskór lækna náði á tímabili þeim undirtökum í þjóðfélaginu að þessari skynsamlegu tilhögun var hafnað þó að það kerfi hafi verið notað með góðum árangri annars staðar á Norðurlöndum og raunar víðast hvar í Evrópu.

Kostnaður hins opinbera hefur tvöfaldast vegna hverrar læknisvitjunar í sérfræðiþjónustunni frá 1997 og heildarútgjöldin um 133,4%.

Þrátt fyrir viðvarandi sultarsöng af hálfu ráðamanna ríkisins vegna kostnaðar í heilbrigðiskerfinu hef ég ekki heyrt nokkurn talsmann ríkisvaldsins anda því út úr sér að e.t.v. ættum við að taka upp tilvísanakerfi eins og rekið er t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Ætlar íslenska ríkið virkilega að standa áfram vörð um sjálftöku sérfræðilækna sem flestir eru einnig á launum inni á spítölunum sem þeir ættu að geta verið fullsæmdir af? Auðvitað er þarna um góða fagmenn að ræða sem vinna sitt verk af kostgæfni en ríkið hefur ekki efni á að stunda oflækningar af þessu tagi og í því er heldur engin skynsemi. Ef fólk vill leita til sérfræðilækna vegna umgangspesta eða smávægilegra kvilla á það að þurfa að borga fyrir það sjálft en ekki eiga kröfu á að ríkið greiði þjónustuna.

Nú hafa heilsugæslulæknar, sem hafa setið í náðum síðan ríkið gerði við þá fastlaunasamning, risið upp og heimtað að vera sérfræðingar líka og fá að vera með einkapraxís. Ég held reyndar að það sé brýn nauðsyn að endurskoða samninga heilsugæslulækna þannig að þeir fái sambærileg kjör og læknar hafa á sjúkrahúsum, en ég tel að það væri alrangt að opna á einkarekstur í grunnþjónustunni sem væri greiddur af ríkissjóði eins og nú tíðkast hjá sérfræðilæknum. Eins er mjög brýnt að koma á einhverju því kerfi að fólk verði fyrst að leita til grunnþjónustunnar áður en það leitar til sérfræðilæknis. Ef ekki má taka upp tilvísanakerfi þá þarf að finna nýjar leiðir til að beina fólki til heilsugæslulækna. Heilbrigðisþjónustan í landinu kostar mikla peninga og við þurfum að tryggja að þeir peningar séu skynsamlega nýttir almenningi til hagsbóta en ekki að reka einhvern nægtabrunn sem sjálftökulið getur sótt í.

Ég vil að lokum óska heilbrrh. góðs gengis í komandi kjaraviðræðum.