Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:56:04 (357)

2002-10-08 16:56:04# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:56]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Enn eru málefni heilbrigðisþjónustunnar til umfjöllunar í umræðu utan dagskrár. Mikil umræða fór fram í síðustu viku um málaflokkinn í umræðunni um fjárlög.

Við búum við traust og gott heilbrigðiskerfi eins og fram hefur komið. Við höfum traust og gott og vel menntað starfsfólk, við höfum tileinkað okkur framúrskarandi tækni og við höfum líka tekið í notkun ný lyf sem eru virkust hverju sinni. Heilbrigðisþjónustan snýr að öllum íbúum og fjölskyldum landsins, þess vegna er málaflokkurinn afar viðkvæmur.

Komið hefur fram að um 70% af heildarútgjöldum heilbrigðisþjónustunnar er launakostnaður. Næststærsti útgjaldaliðurinn er lyfjakostnaður.

Umræðan hefur í dag verið um margt dálítið sérkennileg. Þannig kaus t.d. Siglufjarðar-eðalkratinn Kristján L. Möller að rifja alls ekki upp afrek Alþfl. sáluga þegar Alþfl. sá um málaflokkinn í ríkisstjórninni 1991--1995, enda er síðan búið að afskrifa þann stjórnmálaflokk.

Hv. 19. þm. Reykv. kaus að ræða um einkarekstur eins og hún kýs að kalla það nú í stað þess að í fyrra ræddi hún gjarnan um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Hugmyndafræði hv. þm. minnir mig helst á pilsfaldakapítalisma. Við getum útfært þá hugmyndafræði nákvæmlega á sama hátt í skólakerfinu. Við getum kostnaðargreint hvað það kostar að ala upp barn í leikskóla, hvað kostar að kenna barni í grunnskóla, hvað kostar að kenna barni í framhaldsskóla, hvað kostar að kenna fullorðinni manneskju í háskóla. Síðan getum við sent pakkann til kennaranna eða félagasamtaka og þannig greitt fyrir þennan útlagða kostnað. Ég er ekki hrifinn af þeirri aðferðafræði.

Það má líka velta fyrir sér hver voru úrræði hv. málshefjanda í þessum málaflokki. Þau einkenndust reyndar af upphrópunum á nákvæmlega sama hátt og hún hóf ræðu sína. Hv. þm. talaði um skilgreiningu heilbrigðisþjónustunnar, hv. þm. talaði um kostnaðargreiningu, annars vegar talaði þingmaðurinn um of há laun sérfræðinga og hins vegar um of lág laun heilsugæslulækna.

Lausn hv. þm. var að við ættum að setja á stofn þverpólitíska nefnd. Ég minnist þess hins vegar að þegar ráðherrar setja á stofn nefndir hefur þessi sami hv. þm. stundum sagt með ákveðinni fyrirlitningu: Nú, ein nefndin enn. Þess vegna er lausn hæstv. heilbrrh. mun betri og eðlilegri, þ.e. að láta heilbr.- og trn. fjalla um málið. Við leysum ekki verkefni heilbrigðisþjónustunnar með upphrópunum í utandagskrárumræðu.