Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:12:22 (362)

2002-10-08 17:12:22# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:12]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það sem stendur upp úr umræðunni sem hér hefur farið fram er að það vanti að skilgreina hlutverk stofnana í heilbrigðiskerfinu. Ég tel að það sé ekki skortur á skilgreiningum sem veldur vandamálum. Hlutverk Landspítala -- háskólasjúkrahúss er skilgreint. Það er endastöð í heilbrigðiskerfinu. Það er háskólasjúkrahús. Hlutverk heilsugæslunnar er skilgreint, hún á að vera grunnþjónusta í heilbrigðiskerfinu.

Ég á við tvö vandamál að etja í heilbrigðisþjónustunni sem mér finnst erfiðust. Það þarf að auka aðgengi að heilsugæslunni. Að henni þarf að vera gott aðgengi. Auk þess þarf að auka uppbyggingu í öldrunarþjónustu. Þetta eru þau tvö vandamál sem mér sem heilbrrh. finnast langsamlega erfiðust.

Því hefur verið haldið fram að heilbrrn. og heilbrrh. hafi læst sig inni varðandi heilsugæsluna. Því fer víðs fjarri. Ég hef gefið það út að ég styðji tillögur um blandað launakerfi í heilsugæslunni. Ég hef undirbúið útboð á einni heilsugæslustöð og gefið grænt ljós á að gera þjónustusamninga við heilsugæslulækna. Þannig er langt í frá að heilbrrn. eða heilbrrh. hafi læst sig inni.

Hins vegar tek ég undir að það hefur ekki komið fram hvaða stefnu Samfylkingin rekur varðandi heilsugæslulæknana. Hv. 9. þm. Reykn. orðaði þetta vel. Ég skildi hvað hún var að fara. Við vorum sammála. En ég skildi ekkert hvað aðrir voru að fara, því er nú verr.

Ég er sammála því að það megi ekki vera þannig í heilbrigðiskerfinu að sums staðar sé of greiður aðgangur og annars staðar sé ekki aðgangur. Það verður að vera greiður aðgangur alls staðar. Að því vil ég vinna.

Málefni heimilislækna eru hjá kjaranefnd. Það er engin furða þó að það sé órói í þeirra röðum. Það hefur ekki verið kveðinn upp úrskurður um laun þeirra síðan 1998. Það hefur verið samið við allrar aðrar stéttir síðan. Ég á von á nýjum úrskurði um laun þeirra jafnvel núna í vikunni þó að ég geti ekki sagt um það nákvæmlega. Ég veit að að því hefur verið unnið. Ég vil ræða við þá þegar við sjáum á hvaða grunni kjör þeirra verða. Ég hef beðið m.a. heilsugæslulækna í Hafnarfirði að doka eftir því á fundi með þeim. En þeir hafa sett mjög harkalega fram kröfuna um núllstillta gjaldskrársamninga.

Ég vil undirstrika og endurtaka að sá vandi sem við er að glíma er að ná að gera aðganginn að heilsugæslunni greiðan þannig að hún geti sinnt grunnþjónustunni. Að því vil ég stefna og að því vil ég vinna. Ég vil líka stefna að því að öldruðu fólki sé þjónað í réttu umhverfi og á réttum stað í heilbrigðiskerfinu. Að því er einnig verið að vinna. Svo má ekki gleyma fjáraukalögum þegar talað er um vanda heilbrigðiskerfisins þar sem 1,5 milljörðum er varið í heilbrigðiskerfið.