Aðgerðir til verndar rjúpnastofninum

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:31:39 (364)

2002-10-08 17:31:39# 128. lþ. 6.5 fundur 11. mál: #A aðgerðir til verndar rjúpnastofninum# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:31]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er að mínu áliti hreyft þörfu máli um rjúpnastofninn sem ég held að flestir séu sammála um að er í mikilli lægð um þessar mundir. Mörg orð hafa verið höfð um þennan fallega fugl og ortar vísur um fegurð hans. Ég get tekið undir það allt saman. Ég hef sjálfur stundað rjúpnaveiðar ár hvert síðustu áratugina og mér hefur oft ofboðið hversu nærri þessum fugli menn hafa gengið og verið lítt tilleiðanlegir til að taka undir aðgerðir til að minnka veiðina.

Ég hef t.d. sagt það úr þessum ræðustóli að mér finnst að banna eigi byssur sem hafa fleiri en tvö skot. Þær þrengingar sem eru settar í byssur hafa aldrei gagnast nokkurn skapaðan hlut. Ég hef sjálfur heyrt á fjöllum að menn hleypa frá fimm skotum og upp í átta úr byssunum sínum þannig að allar fullyrðingar um að menn fari eftir þessu eru algjörlega úr lausu lofti gripnar og ekkert á bak við þær. Mér finnst sorglegt að ekki skuli hafa verið hægt að grípa til þess að hafa bara tvo skot í byssunum. Ég er ekki viss um að það sé gagnslaust, eins og kemur fram í þessari greinargerð, að láta kvóta á veiðimenn. Ég hugsa að það geti hjálpað að banna hjálpartæki. Við vitum af því að menn eru á snjósleðum og fjórhjólum uppi um öll fjöll að elta fuglinn. Auðvitað er erfitt að fylgja þessu öllu eftir en þetta er samt einhver hömlunaraðgerð.

Ég held að ekki væri fráleitt að stytta veiðitímann og þá hugsanlega miða við veðuraðstæður. Allir vita að veðrið á þessu hausti er þannig að ekki sést neinn snjór neins staðar. Það snjóar kannski á hæstu jöklum, og búið. Rjúpan hefur því hvergi nokkurs staðar athvarf um þessar mundir. Hún er orðin hvít og það er mjög auðvelt að sjá hana úr mikilli fjarlægð þannig að ég hálfkvíði því að upphaf rjúpnaveiðitímans núna geti leitt til þess að við förum mjög bratt í að drepa rjúpuna að þessu sinni. Þess vegna fyndist mér ekki fráleitt að byrjunartími yrði breytilegur og ráðherra gæti haft það dálítið í hendi sér að fresta upphafi veiðitímans þegar aðstæður bjóða upp á það og landið er þannig að ekki er forsvaranlegt að hefja veiðar.

Ég veit að það er erfitt fyrir margan veiðimanninn ef veiðar verða alfarið bannaðar, og kannski er mjög erfitt að gera það með svo stuttum fyrirvara. Auðvitað er það þó allt saman hægt. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða í umhvn. hvort ástæða væri til þess. En það er örugglega hægt að stytta veiðitímann. Við höfum reyndar séð miklu meiri veiði, eins og kemur fram í þessari sérdeilis góðu þáltill. Það kemur mjög margt fróðlegt fram í tillögunni og þó að maður hafi séð margt af því áður eru þetta samt góðar upplýsingar á einum stað.

Talningar voru gerðar í Hrísey fyrir tveimur árum, sérstakar merkingar, og það átti að fylgja þeim fugli eftir þannig að menn gætu t.d. áttað sig á því af hvaða ástæðum fuglinn dræpist. Það kom reyndar í ljós að mestallur sá fugl sem merktur var í Hrísey fyrir það veiðitímabil drapst úr veirusjúkdómi en var ekki skotinn. Það var á vernduðu svæði úti í Hrísey. Sáralítið af þeim fugli virtist fara upp á land eins og menn höfðu gert ráð fyrir. Kannski er ekki allt sem sýnist en ég held að það fari samt ekki á milli mála að það er miklu minna af rjúpu núna en áður. Því held ég að full ástæða sé til að ræða málið í þinginu og að umhvn. skoði þetta með því hugarfari að leyfa rjúpunni að njóta vafans.