Aðgerðir til verndar rjúpnastofninum

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:37:21 (365)

2002-10-08 17:37:21# 128. lþ. 6.5 fundur 11. mál: #A aðgerðir til verndar rjúpnastofninum# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:37]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem er mjög aðkallandi að mínu viti að taka til umræðu og ég þakka hv. flm. fyrir að hreyfa því hér. Aðeins örfá orð um þetta.

Ég held að það sé ljóst, og það hefur verið sýnt fram á það, að rjúpnastofninn er í niðursveiflu. Menn hafa rætt um það hvernig eigi að taka á því máli, sérstaklega varðandi veiðina. Ég er sammála því sem menn hafa nefnt, t.d. í þessari umræðu, um að skoða þurfi það mjög alvarlega að stytta veiðitímann. Ég held að jafnframt sé rétt ályktað að það þyrfti að gerast strax.

Ég er einn af þeim sem hafa fengið að njóta þess að snæða rjúpu einu sinni á ári. Mér þykir þessi matur lostæti og ætla ekkert nánar út í það. En ég held að verði ekki gripið til aðgerða nú þegar geti svo farið að það þurfi að alfriða rjúpuna og þar með kemur að því að við sem snæðum rjúpu einu sinni á ári missum af því, og það er ekki gott.

Í umræðunni hefur komið fram hvernig veiðimenn hafa borið sig að við að ná fuglinum. Sumar lýsingar sem ég hef heyrt draga upp mynd af skæruliðahópum sem notast við háþróuð vopn og öflug farartæki sem komast nánast hvert sem er. Ef það er rétt mynd eru menn náttúrlega komnir langt út fyrir það sem ég a.m.k. lít á sem sportveiðimennsku. Það er samt kannski annað mál.

Herra forseti. Ég vildi rétt leggja örfá orð í þessa umræðu, vil þó til viðbótar nefna að það hefur verið rætt, og kemur m.a. fram í tillögugreininni, að hugsanlega ætti að skoða sölubann á rjúpu og jafnvel annarri villibráð. Ég vil í því sambandi nefna að hér eru landeigendur og bændur sem hafa í gegnum tíðina nýtt sér þau hlunnindi sem felast í rjúpunni. Þeir hafa veitt hana í hófi, látið hana njóta vafa og síðan selt hana í verslanir. Ég nefni þetta hér þannig að það farist ekki fyrir að ræða um þá hlið málsins. Það þarf líka að huga að þeim landeigendum og bændum sem hafa nýtt sér rjúpnastofninn sem hlunnindi. Ég vildi bara nefna það hér.

Hv. flm. beindi því til umhvn. að kannað yrði hvort grundvöllur væri fyrir því að þessi tillaga næði framgangi strax. Þetta er aðkallandi mál. Það snýst fyrst og fremst um hagsmuni náttúrunnar og ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli eigi náttúran að njóta alls vafa umfram okkur mennina. Ég tel að við í umhvn. munum líta jákvætt á það að taka þetta mál til skoðunar og kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að fara að óskum flm. Meira ætla ég ekki að segja um málið að sinni.