Aðgerðir til verndar rjúpnastofninum

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:40:52 (366)

2002-10-08 17:40:52# 128. lþ. 6.5 fundur 11. mál: #A aðgerðir til verndar rjúpnastofninum# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:40]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni og Magnúsi Stefánssyni, formanni umhvn., fyrir undirtektir þeirra og ræður. Ég get sagt eins og þeir báðir. Ég hef gengið til rjúpna um áratuga skeið eins og hv. þm. Kristján Pálsson, haft af því yndi og vona að svo geti orðið áfram. En ég held að það séu einmitt ekki síst þeir sem hafa notið þess sem eiga að taka upp hanskann fyrir fuglinn og sýna ábyrgð í því að ekki verði gengið of nærri honum. Það er sérstök ástæða til að leggja aftur áherslu á það sem hv. þm. Kristján Pálsson kom einnig inn á, að eins og aðstæðurnar blasa við okkur núna á þessum dögum og ef áframhald verður á því fram að miðjum mánuðinum er sannarlega ástæða til að kvíða mjög upphafi veiðitímans. Mér eru mjög í fersku minni lýsingar, og reyndar líka það sem ég sá sjálfur með eigin augum að gerðist á fyrstu dögum og vikum veiðitímans haustið 2000 þegar einmitt voru mjög sambærilegar aðstæður, jörð alauð upp í efstu fjöll og rjúpan átti sér hvergi undankomu auðið. Þá er ansi hætt við því að hún verði auðveld bráð og gríðarleg magnveiði geti farið fram á þessum fyrstu dögum.

Varðandi náttúruleg afföll og miklar sveiflur í stofninum sem eru þekktar staðreyndir af hvaða orsökum sem þær stafa í hverju tilviki, hvort það eru veirusjúkdómar eða e.t.v. eitthvað í fæðukeðjunni eða hvað það er, er alveg ljóst að einmitt við slíkar aðstæður bætist veiðiálagið við mjög mikil náttúruleg afföll. Það er það sem sérfræðingar eru núna farnir að vara við og benda á að ekki megi hugsa eins og kannski var stundum gert áður, að segja sem svo að vegna þess að náttúrulegu afföllin væru svo mikil og sveiflurnar líka skipti veiðin svo litlu máli. Menn geta einmitt ekki leyft sér að hugsa þannig, heldur öfugt, að þeim mun hærri sem náttúrulega dánartalan er, því meiri sem náttúrulegu afföllin eru, þeim mun viðkvæmara kann mikið veiðiálag að vera á þeim litla hluta stofnsins sem eftir stendur eða af mundi lifa.

Svo er annað sem er ósköp einfalt í þessu máli og er náttúrlega meginröksemdin fyrir því að við grípum til aðgerða af þessu tagi. Við höfum engin önnur tæki í höndunum en það að takmarka veiðiálagið. Við erum vopnlaus gagnvart veirusjúkdómum í villtum dýrastofnum sem engin leið er að eiga neitt við. Það eina sem við getum gert og höfum í okkar höndum er að reyna að takmarka þennan hluta affallanna, og þar liggur okkar ábyrgð.

Ég þakka síðan hv. formanni umhvn., Magnúsi Stefánssyni, fyrir undirtektir hans og að heita því að umhvn. muni taka málið þegar til skoðunar, skoða það að stytta veiðitímann og gera það strax. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. nefndi, að sölubann og þess vegna alfriðun rjúpunnar væri náttúrlega stærri aðgerð, kostar jafnvel lagabreytingar eða lagaheimildir, og síðan er það auðvitað líka stærri aðgerð gagnvart þeim hlunnindum sem vissir aðilar hafa að sjálfsögðu haft af þessari veiði. Þess vegna væri það miklu sársaukafyllri aðgerð ef svo langt þyrfti að ganga að fara út í þetta, annað tveggja eða hvort tveggja. Þó verð ég að segja að miklu fyrr mundi ég mæla með því að reynt yrði einhvers konar sölubann eða kvótasetning af einhverju tagi heldur en að farið yrði út í alfriðunina því þá kemur aftur upp hin hlið mála að menn hætta að fá þær upplýsingar sem veiðikortin og skýrslugerðin skila. Upp að vissu marki er æskilegt frá þeim sjónarhóli að einhver takmörkuð og skynsamleg veiði sé leyfð og það þjónar að sjálfsögðu líka þeim tilgangi að viðhalda þessari hefð, þessu sporti, þessari útvist og þessum nytjum.

Því miður fyrirfinnast vissulega einstakir veiðimenn, ef veiðimenn skyldi þá kalla, sem koma óorði á alla hina sem eru auðvitað sem betur fer uppistaðan, þeir sem ganga vel um landið og stunda þennan veiðiskap af sportmennsku. Það er eins og víðar að skemmdu eplin þurfa ekki að vera mörg í körfunni til að skemma út frá sér og/eða koma a.m.k. óorði á hlutina. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að slíkt viðgengst í einhverjum mæli og á því þarf að reyna að taka með öllum tiltækum ráðum og reyna að beina veiðinni í farveg sportveiðimennsku og góðrar umgengni, bæði um lífríkið og náttúruna alla.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna af minni hálfu en þakka fyrir undirtektirnar og lýk máli mínu.