Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:59:20 (369)

2002-10-08 17:59:20# 128. lþ. 6.6 fundur 5. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:59]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kem hingað í ræðustól fyrst og fremst til að taka undir þau sjónarmið sem fram komu í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, flm. þessa frv. til laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég vil taka undir þá hugsun sem þar kemur fram, en frv. er til þess fallið að styrkja réttarstöðu launafólks við kjarasamningsgerð.

Hv. þm. rakti hvernig tilteknar stéttir hafa verið hlunnfarnar um langt árabil þegar atvinnurekendur hafa þráast við að ganga til samninga. Verst hafa sjómenn orðið úti og stéttir sem tengjast sjónum, en í fylgiskjali sem fylgir frv. er ítarlega gerð grein fyrir þessu. Þar kemur fram að á 19 árum muni um 2.403 dögum eða u.þ.b. sex og hálfu ári sem þessar stéttir eða tilteknar stéttir hafa verið samningslausar.

Hv. þm. vék einnig að öðrum stéttum sem hafa verið án samninga í lengri eða skemmri tíma. Hann nefndi lögreglumenn og sjúkraliða sem síðast voru án samninga í rúmlega ár eða 13 mánuði.

Hv. þm. vék einnig að lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og þeim breytingum sem gerðar voru á þeim lagabálki á miðju ári 1996. Ég átti sæti í nefnd sem hæstv. félmrh. skipaði í lok árs 1995 og starfaði fram á árið 1996, en sprakk reyndar í loft upp vegna ágreinings innan nefndarinnar þegar ljóst var að hæstv. ráðherra tók afstöðu með atvinnurekendasamtökunum sem vildu þröngva margvíslegum breytingum inn í lögin sem voru verkalýðshreyfingunni ekki að skapi. Það var mjög miður að þessari nefndarvinnu skyldi ljúka á þennan hátt því þar var margt ágætt uppi á borði og ég er sannfærður um að það er öllum til hagsbóta að við búum við reglugerðarverk við kjarasamningana sem víðtæk sátt ríkir um. Eitt af því sem um var rætt á þessum tíma voru svokallaðar viðræðuáætlanir sem reyndar voru festar inn í lögin og á að gera tíu vikum áður en að samningar renna út, en eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á eru þetta ekkert annað en orðin tóm. Ástæðan er sú að aldrei skapaðist sú sátt sem nauðsynleg er um reglugerðarverkið og þær lagabreytingar sem þarna voru á döfinni.

Hvað varðar nákvæma útfærslu á þessari hugsun þá finnast mér ýmsar leiðir koma til greina. Hv. þm. leggur til að takist ekki samningar fyrstu sex mánuði eftir að þeir renna út þá gildi sú dagsetning sem samningar eru undirritaðir en síðan fari dagsetningin að færast aftur á bak og verði atvinnurekandanum sífellt dýrari eftir því sem samningar dragast á langinn. Þetta er ein leið.

Staðreyndin er sú að iðulega er það atvinnurekandinn sem telur það vera sér til hagsbóta að draga kjarasamninga. Þess vegna er eðlilegt að hvatinn virki á þennan veg og sé íþyngjandi eftir því sem hann dregur að ganga til samninga. Það er honum til hagsbóta að draga samninganna því að þá koma þær launahækkanir eða kjarabætur sem yfirleitt er samið um ekki til framkvæmda fyrr en við undirskrift. Þetta er því eðlilegt út frá þeim sjónarhóli.

Þótt ég sé hallari undir það að hugsa málið fyrst og fremst út frá stöðu launamannsins þá mætti hugsa sér að þessi regla eða svipuð regla gilti, jafnvel strangari, þannig að kjarasamningar skuli alltaf gilda frá þeim degi sem þeir renna út nema til verkfalls komi, nema kjarabætur séu knúðar fram með verkföllum. Þarna væri svona ákveðinn jafnræðisþáttur settur inn í reglugerðarverkið, þ.e. ef það er launamannsins að draga samninga og knýja síðan fram kjarabætur með verkföllum þá sé eðlilegt að önnur regla sé uppi. Þetta er nokkuð sem einfaldlega mætti skoða. Ég ítreka að ég er fullkomlega sáttur við þá meginhugsun sem fram kemur í frv. Hún hefur áður komið fram eins og hv. þm. gerði grein fyrir. Mér finnst komið að því að breytingar af þessu tagi verði festar í lög. Ég held að það yrði öllum til góðs.