Samkeppnislög

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:45:50 (380)

2002-10-09 13:45:50# 128. lþ. 7.95 fundur 162#B samkeppnislög# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að mér þótti það eftirtektarvert að hæstv. viðskrh. sá ástæðu til að blanda sér í þau önnur mál sem hér hafa verið tekin upp um störf þingsins en ekki um það alvarlega málefni sem ég gerði hér sérstaklega að umræðuefni. Mér finnst það athyglisvert í ljósi þess að hæstv. viðskrh. úttalar sig sérstaklega í Dagblaðinu í gær um samkeppnismál og kemst þar m.a. svo að orði að samkeppnislögin sem voru í gildi árið 1999, og ég lýsti hér áður, hafi verið slök lög. En eftir sem áður gáfu þau lög heimild til þess að fylgjast með því að ekki væri um skaðlega undirverðlagningu að ræða. Þau voru nú ekki slakari en svo.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því að í Dagblaðinu í gær segir Guðmundur Sigurðsson, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það virðist hafa orðið stefnubreyting hjá stóru keðjunum í þá átt, að þær hafi ekki beitt sér með sama hætti og áður eftir að skýrslan kom út. Við höfum upplýsingar um það frá birgjum að ástandið hafi gjörbreyst.`` --- Með leyfi hæstv. forseta, vil ég endurtaka: ,,Við höfum upplýsingar um það frá birgjum að ástandið hafi gjörbreyst.``

Nú vil ég spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort henni sé kunnugt um hvað embættismaðurinn á við með þessum orðum og hvort þarna sé verið að gefa í skyn að óheilbrigðir viðskiptahættir hafi átt sér stað á milli stórmarkaða og birgja. Hvað liggur á bak við þessi orð er nauðsynlegt að fá upplýst vegna þess að hæstv. viðskrh. telur samkeppnislög metnaðarfull og er yfirleitt bjartsýn á að stofnunin og núgildandi lög dugi til þess að vöruverð geti lækkað.