Einkavæðingarnefnd

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 14:27:45 (387)

2002-10-09 14:27:45# 128. lþ. 7.3 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ekki er að undra að tillaga af þessari tegund komi fram á hinu háa Alþingi þegar ferill einkavæðingarnefndar á síðustu missirum og árum er skoðaður. Það er satt að segja, herra forseti, ein sorgarsaga, það ferli allt saman og það verklag sem á þeim bænum hefur verið viðhaft. Auðvitað er óþarfi að endurtaka það sem hér hefur áður verið sagt og alþjóð er kunnugt, að þeir hafa verið að týna tölunni þar, nefndarmenn, einkum á síðari stigum, og fengið upp í háls af einhverjum ástæðum, sumum kunnum, öðrum ókunnum. Ráðherrarnir sem í hlut hafa átt og skipað hafa viðkomandi nefndarmenn hafa þá gripið til þess ráðs að setja til starfa ráðuneytisstjóra sína, svona til þess að þeir geti haft fingurinn á púlsinum þannig að þeir geti haft meira um það að segja en áður hvernig þessi nefnd vinnur.

Manni kemur nefnilega til hugar að þessari nefnd hafi á síðari árum verið vandi á höndum, ekki síst vegna þess að ákveðnar leikreglur og ákveðin viðmið hefur fullkomlega vantað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það er óþarfi að rifja það upp líka að stundum er talað um mikilvægi dreifðrar eignaraðildar þegar það á við. Hæstv. forsrh. hefur farið fram í broddi fylkingar í þeim efnum þegar það hefur átt við, að hans mati. Örfáum vikum eða kannski mánuðum síðar er hlutunum snúið við og talað um mikilvægi þess að kalla til kjölfestufjárfesta, einhverja stóra aðila sem geta keypt stóran hlut eða allt að meiri hluta í viðkomandi fyrirtæki. Landsbankaumræðan og -salan langdregna er talandi dæmi um þetta.

Stundum tala menn svo um mikilvægi þess að fá hæsta mögulega verð fyrir viðkomandi ríkisfyrirtæki og tala um nauðsyn þess að fólkið í landinu fái eins mikið og nokkur kostur er fyrir þessi þjónustufyrirtæki sem fólkið sjálft hefur auðvitað átt sinn þátt, og langstærstan þátt, í að skapa. En svo kemur að því að þeirri plötu er líka snúið við og menn tala um að það sé allt eins gott að fá bara lágt verð þannig að fólkið í landinu geti grætt á því að kaupa hlut í þessum fyrirtækjum, jafnvel svo þegar um stóra aðila er að ræða að reynsla þeirra sé svo veigaþung í að koma að stjórn fyrirtækis á borð við þau sem í sölu hafa verið að réttlætanlegt sé að láta þessa stóru aðila fá viðkomandi þjónustustofnun fyrir lítið. Þarna rekst hvað á annars horn og maður áttar sig á því að sérfræðinefnd eins og einkavæðingarnefnd hefur stundum úr vöndu að ráða því að auðvitað veit alþjóð það, herra forseti, að einkavæðingarnefndin hverju sinni tekur ekki hinar endanlegu ákvarðanir um eitt eða neitt eins og hæstv. fjmrh. sjálfur sagði. Pólitíkusarnir ráða. Spurningin er: Eru þeir með puttana í daglegum og vikulegum fundum þessarar nefndar? Segja þeir fyrir hverju sinni hvað gera skal? Er ekki sótt í þessa sérfræðiaðstoð sem einkavæðingarnefnd á jú sannarlega að búa yfir? Það eru atriði af þessum toga sem valda því að tortryggni gætir. Er sérfræðin ekki jafnmikil og menn vilja vera láta? Eru þetta allt þessi svokölluðu helmingaskipti, einn fyrir þig, annan fyrir mig? Vissulega er ýmislegt í öllum þessum farsa, vil ég segja, sem rennir stoðum undir þá fullyrðingu og meira til. Mér dettur í hug, herra forseti, hvort ekki sé ráð, eins og hér er raunar lagt til, að stokka upp spilin.

[14:30]

Ég tek undir með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að hér kem ég ekki upp til að mæla því mót heilt yfir línuna að ríkisfyrirtæki sem eru á samkeppnismarkaði verði einkavædd, sem eru á samkeppnismarkaði, ég undirstrika það, herra forseti. (Viðskrh.: Eins og bankarnir.) Af því að hæstv. viðskrh. grípur inn í, þá er stundum úr vöndu að ráða þegar kemur að þessari meintu samkeppni. ,,Eins og bankarnir,`` sagði hæstv. ráðherra. Betra ef satt væri að sú samkeppni væri virkari en raun ber vitni. Betur að satt væri að bankarnir væru að keppa hver við annan um bestu vaxtakjör, um lægsta kostnað. En því miður virðast tölur sýna allt annað. Þar virðast mál komin í svipaðan farveg og þjóðin hefur þekkt árum og áratugum saman þegar olíufélögin eða olíuverðið er skoðað. En sitthvað er nú samkeppni og samkeppni.

Það er kjarni þessa máls að maður hefur haft um það efasemdir að það eitt að selja þessi ríkisfyrirtæki til vildarvina ríkisstjórnarflokkanna dygði til þess að skapa hina virku samkeppni. En til þess er leikurinn gerður. Lykilorðið þegar menn nálgast þetta hugtak, einkavæðingu, er samkeppnisvæðing, hvernig við getum best komið á samkeppnisvæðingu, virkri samkeppni í viðkomandi geira. Það er kjarni þessa máls.

Herra forseti. Ég var að segja, áður en hæstv. viðskrh. greip fram í, að spurningin er hvort ekki sé eðlilegt við þessar aðstæður að stokka upp spilin og Alþingi geri nokkuð skýrt hvaða leikreglur skuli viðhafðar þegar gengið er til verka við sölu ríkisfyrirtækja og þá líka hitt hvort Alþingi sjálft eigi ekki einfaldlega að skipa í slíka nefnd, með öðrum orðum að hún verði þverpólitísk.

Mér hefur fundist það dálítið óeðlilegt að þingmenn þjóðarinnar hafi satt að segja ekkert vitað nema um gang þessara mála þó verið sé að fara með verðmæti upp á tugi milljarða kr. Nú veit ég vel að ráðherrann í hverju tilviki hefur heimildina. En er óeðlilegt að stjórnarandstaðan geti óbeint komið að þessum málum? Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að mál af þessum toga verða ekki rekin fyrir opnum tjöldum. Viðkvæmar viðræður við þurfa að fara lágt í sumum tilfellum. Í öðrum tilfellum ekki, eins og dæmin sanna. Það gefur augaleið að ef um þverpólitíska nefnd af þessum toga yrði að ræða þá yrði gætt trúnaðar. En ég held að það væri mikilvægt fyrir stöðu málsins, gang málsins, framtíðarhorfur og verklag allt að stjórnarandstaðan komi að þessu verki. Öðruvísi verður ekki vit í þessu eins og þessi sorgarsaga sýnir okkur svo bersýnilega.