Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:28:10 (397)

2002-10-09 15:28:10# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvar á að bera niður í ræðu hv. þm. En í fyrsta lagi vil ég segja að hv. þm. heldur því fram að ef löggjafinn geri mistök þá eigi ekki að breyta lögum til að leiðrétta þessi mistök. Þessu er ég algerlega ósammála. Ef landslögin eru ekki í samræmi við lýðræðislegan vilja, vilja meiri hlutans, þá á að sjálfsögðu að breyta lögum í þá veru.

Í annan stað rifjaði hv. þm. upp fyrri ummæli sín um lagabreytingarnar á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og kvaðst hafa varað við því sem gæti gerst --- ég man ekki betur og fróðlegt væri að hann rifjaði það upp --- ef óprúttnir aðilar færu sínu fram. Og er það misskilningur hjá mér að sá óprúttni aðili eða í hópi þeirra óprúttnu aðila hafi einmitt verið hv. þm. Pétur H. Blöndal, að hann hafi verið að vara við eigin gjörðum? Að það sé nákvæmlega það sem hann hafi verið að gera?

Síðan þetta með græðgina og annað slíkt. Það er alveg rétt sem hann segir, það er hægt að klæða hana í margvíslegan búning og það finnst mér hv. þm. hafa gert í þessu máli.