Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:29:38 (398)

2002-10-09 15:29:38# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þegar lög eru sett og ágreiningur rís um túlkun þeirra, þá á ekki að setja lög til að leysa ágreininginn, herra forseti. Þetta er munurinn. Að sjálfsögðu geta menn breytt lögum með góðum tíma og með mikilli yfirlegu ef það sýnir sig að lög eru mistök en þau voru það ekki í þessu tilfelli. Það var búið að benda á þetta og Alþingi samþykkti það samt þannig að þetta voru ekki mistök. Og ekki er hægt að grípa inn í réttardeilur og réttaróvissu með því að breyta lögunum öðrum aðilanum í hag.

Varðandi óprúttna aðila þá átti ég ekki við stofnfjáreigendur sem nú hafa komið fram, alls ekki. Ég átti við þá aðila sem réðu yfir fé sem enginn ætti. Ég átti við þá aðila sem stjórna þessu mikla fé í sparisjóðunum sem svo aftur ráða Kaupþingi, sem svo aftur ræður dótturfyrirtækjum um allan heim. Það er þetta mikla veldi sem ég benti á en ekki að stofnfjáreigendur fengju eitthvað fyrir sinn snúð. Þeir eru jú þeir einu sem hafa lagt fram fé í þessi fyrirtæki. Og hugmynd Búnaðarbankans gekk ekki út á það að skerða eina einustu krónu í eigið fé sparisjóðsins eða því fé sem ætlað var til menningar- og líknarmála. Þeir ætluðu meira að segja að setja upp áætlun um að stórauka framlög upp í hundruð milljóna á ári til menningar- og líknarmála. Það kom fram. Það átti því ekki að ganga á ávöxtun þessa fjár heldur átti einmitt að veita það til þeirra markmiða sem til var ætlast. En þeir óprúttnu aðilar sem ég nefndi voru þeir sem hugsanlega gætu náð yfirráðum yfir þessu fé og þá benti ég á það sem hugsanlegan möguleika. Ég er ekki að segja að þeir menn sem núna eru þarna við stjórnvölinn séu þannig.