Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:40:04 (404)

2002-10-09 15:40:04# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi orðræðu hv. þm. fullkomlega. Málið er að ef þeir sem hætta eigin fé --- og takið eftir, eigin fé --- stunda ekki eðlileg viðskipti og eðlilegan rekstur þá tapa þeir. Ef þeir fara að hygla einhverjum, sjálfum sér eða öðrum, í lánveitingum, ef þessi stóri eigandi færi að hygla sjálfum sér eða öðrum í lánveitingum, þ.e. að beita valdi sínu og vera eitthvað annað en þjónustustofnun þá tapar hann. Þá tapar hann sem hluthafi. Hinn sem fer með eignina sem enginn á, eins og t.d. áður var þegar þetta voru ríkisbankar --- þá átti enginn, það var enginn sem tapaði --- (Gripið fram í.) má ég klára --- enda töpuðu þeir bankar endalaust og hlunnfóru stöðugt annan aðilann sem var sparifjáreigandinn. Þeir þurftu ekki að gæta þess. Þessi er einmitt munurinn. Þegar menn fara með eigið fé og hætta því þá verða þeir að stunda eðlilegan rekstur og verða að ná fram góðri arðsemi og það gera þeir ekki nema með því að reka fyrirtækið sem þjónustustofnun. Krafan um arðsemi eigin fjár neyðir þá til þess að láta af þeim völdum að hygla einum og öðrum, frændum og öðrum, sem bankastjórum eða sem lántakendum. (SJS: Er mannskepnan í eðli sínu svona?) En ef menn fara með annarra manna fé þá er alltaf hættan fyrir hendi. Ég segi ekki að svona séu allir. En hættan er sú að að því fé komist aðilar sem reyna að hygla frændum sínum með lánveitingar eða forstjórum eða bankastjórum eða pólitískum vinum eða einhverjum slíkum.