Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:55:05 (408)

2002-10-09 15:55:05# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að efna til umræðu um málefni aldraðra og húsnæðismál. Ég held að það hefði sannarlega verið ástæða til að efna til tveggja umræðna um þetta en hann kaus að taka þetta saman. Ég mun hér fjalla um málefni aldraðra.

Eins og kom fram í stefnuræðu forsrh. hefur verið efnt til samráðs við heildarsamtök aldraðra. Og eins og þar segir er markmiðið að ná sáttargjörð í samningsformi við heildarsamtök aldraðra. Það á auðvitað við um húsnæðismál aldraðra eins og önnur málefni sem snúa að þeim.

Það er sífellt mikilvægara að hafa samráð við hinna ýmsu hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Það hefur verið gert á undanförnum árum við heildarsamtök aldraðra. En slíkt samráð má alltaf hafa meira og er mjög nauðsynlegt að það verði aukið.

Varðandi húsnæðismál aldraðra er það þannig að hér á landi eru hlutfallslega flest stofnanarými miðað við önnur vestræn ríki. Almennt er það svo að aldraðir kjósa helst að búa sem lengst heima hjá sér með þeirri aðstoð sem til þarf. Því er nauðsynlegt að huga að þeim mismunandi rekstrarformum sem hafa verið þróuð, t.d. reynslusveitarfélagið á Akureyri þar sem bærinn rekur saman félagsþjónustu og heilsugæsluna í einni einingu. Árangurinn af þessu formi hefur reynst góður. Nauðsynlegt er að halda því til streitu og þróa áfram það að samnýta kraftana í félagsþjónustunni og heimaþjónustunni.

Þau eru fleiri málefnin sem snúa að öldruðum sem mjög nauðsynlegt væri að ræða en til þess gefst ekki tími.