Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 16:08:54 (414)

2002-10-09 16:08:54# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sparaði ekki stóru orðin frekar en venjulega, frekar en á fyrri árum. Ég var reyndar að vona að það væri komið meira jafnvægi í málflutninginni hjá henni en svo er ekki og við verðum að búa við það.

Ég náði fram skattleysi húsaleigubóta sem hv. þm. samdi um að yrðu skattlagðar þegar þær voru teknar upp. Víst væri gaman að veita vaxtalaus lán, það er ekki spurning, eða með mjög lágum vöxtum. En hvar á að taka peningana? Það er spurningin. Það er kannski rétt að menn reyndu að svara því. Það fóru rúmir 16 milljarðar kr. forgörðum úr Byggingarsjóði verkamanna og við höfum ekki upp á þá 16 milljarða að hlaupa lengur.

Varðandi skattleysi húsaleigubótanna þá var Þjóðhagsstofnun var beðin um að meta áhrif þeirrar breytingar. Niðurstöðurnar voru þær að samkvæmt gögnum um greiðslur húsaleigubóta í Reykjavík á árinu 2001 var talið líklegt að breytingin leiddi til hækkunar á ráðstöfunartekjum 91% af bótaþegum. Hækkunin nam um 4% að meðaltali. Í húsaleigukönnun Hagstofunnar árið 1999 er talið að hlutfall leigjenda hafi verið á bilinu 15--17%. Það er talið líklegt að 17% íbúða í Reykjavík séu leiguíbúðir og lætur nærri að fjöldi þeirra leiguíbúða séu rúmlega 7.500. Upplýsingar gefa til kynna að félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík séu 2.900 og líklegt er að almennar leiguíbúðir séu 4.600. Heildarfjöldi húsaleigubótaþega í Reykjavík í maí 2002 var rúm 2.800.

Tekist hefur samstarf milli ríkisstjórnar og Samtaka aldraðra og sú vinna er komin í gang. Ég bind vonir við að niðurstöður þess starfs liggi fyrir áður en gengið verður frá fjárlögum.