Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:33:05 (416)

2002-10-10 10:33:05# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Í dag, 10. október, er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og tel ég eðlilegt að hans sé minnst í störfum þingsins. Í ár er hann haldinn undir kjörorðinu: ,,Áhrif áfalla og ofbeldis á börn og unglinga``.

Víða er verið að vinna mjög gott starf í geðheilbrigðismálum okkar. Ég nefni Geðræktarverkefnið, mikið starf á geðdeildum, hjá frjálsum félagasamtökum svo sem Geðhjálp, Rauða krossinum og klúbbnum Geysi svo fáir séu nefndir. En þrátt fyrir það má ýmislegt betur fara.

Það bíða t.d. 60--70 börn eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeild og alvarlegar upplýsingar undanfarna daga um sálarangist og geðheilsu fjölda barna sem þola einelti kalla á stóraukna geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu við börn.

Geðsjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma á Íslandi og má geta nærri að fjórði hver Íslendingur greinist með geðraskanir einhvern tíma á lífsleiðinni, þ.e. 70 þúsund manns. Löng bið er eftir meðferð og endurhæfingu geðsjúkra og nokkurra mánaða bið er eftir tíma hjá geðlæknum samkvæmt upplýsingum frá Geðhjálp. Heimilislausir alvarlega geðsjúkir á höfuðborgarsvæðinu fylla nokkra tugi og þá vantar tilfinnanlega þjónustu. Tengslaleysi heilbrigðisþjónustunnar við fangelsin er áhyggjuefni. Fangar með geðræn vandamál og fíkniefnavanda fá ekki þjónustu og dæmi eru um að geðsjúkir séu settir í fangelsi fyrir að stela sér til matar fyrir smápeninga.

Í heilbrigðisáætlun eru háleit markmið um bætta stöðu í geðheilbrigðismálum og hæstv. forsrh. hét stórátaki í málaflokknum í stefnuræðu í fyrra.

Herra forseti. Ég spyr því: Hvernig hyggst hæstv. heilbrrh. bregðast við ástandinu sem nú ríkir í þessum málum? Telur hann ríkisstjórnina vera búna að efna loforðið frá því í fyrra og hvernig hyggst hann ná þeim árangri sem stefnt er að í heilbrigðisáætlun?

Að síðustu vil ég þakka honum fyrir að koma hér til að ræða þetta viðkvæma mál í dag.