Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:26:19 (433)

2002-10-10 11:26:19# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:26]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um skattfrelsi lágtekjufólks sem ég flyt ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Kristjáni L. Möller.

Tilgangur þessarar tillögu er að leitað verði leiða til að afnema eða lækka verulega skatta lífeyrisþega og launafólks sem hefur tekjur undir lágmarkslaunum fyrir fulla dagvinnu.

Verulegar breytingar hafa orðið á skattgreiðslum láglaunafólks og lífeyrisþega á síðustu árum. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar á sl. ári greiddi láglaunafólk og lífeyrisþegar með laun og bætur undir 90 þús. kr. á mánuði um 1 milljarð kr. í tekjuskatt og útsvar. Þá er miðað við heildarlaun og greiðslur frá Tryggingastofnun og úr lífeyrissjóði, auk atvinnuleysisbóta, húsaleigubóta og fjárhagsaðstoðar.

Hugmyndin er að lækkun, afnám eða endurgreiðsla skattanna nái eingöngu til þeirra sem hafa sér til framfærslu tekjur frá skattleysismörkum að lágmarkslaunum. Með lágtekjufólki er eingöngu átt við launatekjur og lífeyrisgreiðslur undir lágmarkslaunum, auk atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Þannig eru fjármagnstekjur ekki innifaldar. Sérstakur frádráttur í skatti á móti launatekjum láglaunafólks þekkist t.d. í Finnlandi og Bandaríkjunum.

Efni tillögunnar er: Alþingi ályktar að fela fjmrh. að skipa nefnd sem hafi það verkefni að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega tekjuskatt lágtekjufólks og lífeyrisþega sem hafa tekjur undir lágmarkslaunum. Í því sambandi skal m.a. skoða endurgreiðslu skattsins í eftiráálagningu eða sérstakan frádrátt frá tekjum. Í nefndinni verði m.a. fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og samtaka aldraðra og öryrkja.

Niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi á haustþingi 2003.

Flm. þessarar tillögu gera sér fulla grein fyrir því að þetta mál er ekki einfalt, ekki síst með tilliti til jaðaráhrifa. Engu að síður er það sannfæring flm. að það sé vilji mikils meiri hluta þjóðarinnar að ná sátt um skattfrelsi lægstu launa og lífeyrisgreiðslna, sem og atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, sem eru langt frá því að hrökkva fyrir allra brýnustu nauðþurftum. Brýnt er því að sérstaklega verði skoðað hvaða leiðir eru færar í þessu efni og meta kosti og galla slíkra breytinga á sköttum láglaunafólks.

Ástæða þess að við förum þá leið að setja hugmyndina fram í formi þáltill. en ekki útfærðu frv. er sú að við viljum að aðilar vinnumarkaðarins komi að þessu verkefni sem, eins og ég sagði, er ekki einfalt en þó framkvæmanlegt.

Ég held að flestir hljóti að vera sammála því að það er ómanneskjulegt að skattleggja látekjufólk sem ekki á fyrir brýnustu nauðþurftum. Við höfum heyrt það á undanförnum mánuðum og missirum að fátækt hafi aukist í landinu, og frá hjálpastofnunum hafa komið tölur um 20--30% aukningu í þeim hópi fólks sem þarf að leita til hjálparstofnana af því að það á ekki fyrir brýnustu nauðþurftum milli mánaða.

[11:30]

Á síðustu árum hefur skattlagningin verið að breytast í þá átt að hún hefur færst frá fjármagni og stórfyrirtækjum yfir á launafólk. Það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar. Staðreyndin er sú að hvergi er greiddur eins lítill eða lágur fjármagnstekjuskattur og hér á landi. Hann er yfirleitt um 25--45% í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hér er hann um 10% og skattar á fyrirtæki eru hvergi lægri en hér á landi en aftur á móti er tekjuskattur á einstaklinga með því hæsta sem þekkist. Við þekkjum það frá síðustu þingum að sú leið sem ríkisstjórnin hefur verið að fara er að afnema enn frekar skatta á þá sem eiga fjármagnið og tekjurnar í þessu landi.

Í skattframtölum á undanförnum tveimur árum hefur komið fram að mikil samþjöppun hefur orðið á fjármagnsgróðanum. Þeim hefur fækkað verulega sem eiga smávegis í hlutabréfum, lítinn sparnað og greiða fjármagnstekjuskatt. Þannig kom fram á síðustu skattframtölum að á árinu 2000 höfðu um 11 þúsund manns einhverjar fjármagnstekjur en þeim hafði fækkað niður í 4 þúsund, ef ég man rétt. Alla vega hafði fækkað um 7--8 þúsund fólki með litla hlutabréfaeign en hjá stórum fjármagnseigendum hafði eignin vaxið mikið vegna þess að þrátt fyrir þessa miklu fækkun varð aukning á fjármagnstekjuskattinum sem greiddur er að mig minnir um 30--40%. Þegar nánar er rýnt í þessar tölur, eins og á síðasta skattframtali, kemur þessi samþjöppun enn gleggra fram. Þá kom fram að 21 fjölskylda sem mest hafði í söluhagnað af hlutabréfum og fjármagnstekjum var að meðaltali með um 300 millj. kr. á sl. ári eða sem samsvarar, herra forseti, 800 þús. kr. á dag bara í fjármagnstekjur. Það er nálægt því eða litlu minna en lífeyrisþegar hafa á heilu ári í lífeyrisbætur. Þetta fólk sem var með þessar 300 millj. að meðaltali, þessi 21 fjölskylda, greiddi af þessu 10% skatt en launatekjur þessara fjölskyldna voru að meðaltali 3,4 millj. sem greiddur var af 38% skattur. Þarna sjáum við í hnotskurn hvernig samþjöppun auðs er að verða í þjóðfélaginu og hvernig þeim hefur verið hlíft sem eiga mikið fjármagn.

Í þessum tölum mátti m.a. líka sjá að ef fjármagnstekjuskatturinn var tekinn og samsetning hans skoðuð að öðru leyti þá kom í ljós að 2% þeirra sem höfðu einhverjar fjármagnstekjur greiddu 53% af skattinum. Það þýðir að 96 fjölskyldur höfðu á sl. ári að meðaltali um 116 millj. hver þeirra bara í fjármagnstekjur af eignum sínum.

Ríkisstjórnin létti verulega sköttum af þessu fólki með því að afnema það að eftir ákveðna fjármagnseign yrði greiddur skattur sem samsvaraði launaskatti eða skatti á launatekjur. Nú greiðast 10% af öllum fjármagnstekjunum. Auðvitað varð ríkissjóður fyrir verulegu tekjutapi af þeim sökum. Við sem flytjum þessa tillögu erum með henni að óska eftir því að sátt náist um að kanna hvaða leiðir eru færar til að létta þessum skatti af lágtekjufólki.

Eins og ég nefndi áðan eru jaðaráhrifin vandamálið í þeirri leið sem við leggjum til. Við teljum hins vegar að hægt sé að skoða þetta með endurgreiðslu í eftiráálagningu með líkum hætti og með hátekjuskatt eða að ákveðinn frádráttur miðist við ákveðin tekjumörk og væri stiglækkandi vegna þess að ef hann er ekki stiglækkandi myndast munur á þeim sem eru ofan og neðan tekjumarkanna. Þannig gætum við hugsað okkur að menn mundu fallast á að ákveðin fjárhæð kæmi til frádráttar frá skattinum. Við getum nefnt tölur eins og 5--8 þús. kr. af þeim sem mest fengju og síðan væri þetta stiglækkandi og rynni út við lágmarkslaunin. Þetta er ein leið sem hægt er að fara og þetta er sú leið sem hefur verið farin í Finnlandi. Þannig myndast ekki sá mismunur þegar endurgreiðslan hættir sem ella yrði. Þetta er mikilvægt að menn hafi í huga en við erum vitaskuld tilbúin að skoða aðrar leiðir.

Ég vil nefna, af því að skattleysismörkin hafa verið verulega í umræðunni, að ef þau hefðu fylgt launavísitölu frá 1995, herra forseti, þá ættu þau að vera 34 þús. kr. hærri á mánuði en þau eru og munar um það. Það er ljóst að skattleysismörkin hafa verið fryst að verulegu leyti frá því að þessi ríkisstjórn tók við á árinu 1995, m.a. til að ríkisstjórnin eigi fyrir þeim skattaívilnunum sem hún hefur fært hátekjufólki og fjármagnseigendum. Það er með ólíkindum, herra forseti, hvað ríkisstjórnin hefur gengið langt í að skerða kjör þeirra hópa sem þessi tillaga á nú að bæta kjörin hjá. Það vantar 7 þús. kr. á mánuði hjá örorkulífeyrisþegum og ellilífeyrisþegum til að þeir fái það sem þeim ber miðað við launavísitölu.

Þessi ríkisstjórn hefur ávallt fundið leiðir til að koma í veg fyrir að lífeyrisþegar fái hækkun í samræmi við launavísitölu. Hefði það verið gert væri lífeyrir þessa fólks 7 þús. kr. hærri á mánuði. Það er, herra forseti, verulega stór hópur fólks, t.d. aldraðra, sem gert er að lifa af lágum tekjum. Helmingur aldraðra hefur sér til framfærslu laun sem eru undir lágmarkslaunum eða rúmlega 90 þús. kr. Sumir aldraðir hafa það alveg ágætt en stór hópur, og hér er ég að tala um helming, hefur sér til framfærslu laun undir lágmarkslaunum. 43% öryrkja hafa engar tekjur úr lífeyrissjóði og einungis sér til framfærslu það sem þeir fá frá Tryggingastofnun ríkisins.

Síðan höfum við með hóp atvinnulausra sem fær um 73 þús. kr. á mánuði og greiðir af þeim einhvern skatt. Nú er svo komið að lífeyrisþegar sem engan skatt greiddu áður en þessi ríkisstjórn tók við á árinu 1995, greiða nú á milli 5 og 8 þús. kr. í hverjum einasta mánuði í skatt, eða sem samsvarar eins mánaðar lífeyrisgreiðslu í skatt á ári. Þegar til þess er tekið að stór hópur þessa fólks, eins og öryrkjar og lífeyrisþegar, þurfa margir hverjir að greiða á ári sem samsvarar eins mánaðar greiðslu bara í lyfjakostnað og það er komið svo að tveggja mánaða lífeyrisgreiðslur þessara hópa fara í að greiða skatt og lyf, herra forseti, þá er eitthvað mikið orðið að í þessu þjóðfélagi. Þetta þarf að skoða. Ein leiðin sem við bendum á er að vinda sér í það brýna verkefni að afnema skatta af þessu fólki, eða a.m.k. að stíga skref í þá átt sem við leggjum til í þessari tillögu.

Ég vil nefna, herra forseti, að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mælir fyrir um að öllum sem þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra tilvika. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Ég tel, herra forseti, að með því að stór hópur í þjóðfélaginu, sennilega milli 10 og 12 þúsund manns, hafi tekjur sem eru á bilinu frá skattleysismörkum að lágmarkslaunum þá jaðri það við brot á stjórnarskránni, þegar þessu fólki er boðið upp á það að eiga ekki fyrir nauðþurftum frá degi til dags. Það neyðist til að leita til hjálparstofnana og síðan kemur skattakrumla ríkisins og tekur skatt af þeim litlu tekjum sem þetta fólk hefur meðan sífellt er verið að létta skattbyrðinni af hálaunafólki og fjármagnseigendum.

Herra forseti. Það er von mín að þessari tillögu verði vel tekið og menn setjist yfir það brýna verkefni að leita leiða til þess að afnema eða létta sköttum af lágtekjufólki.

Herra forseti. Þessi tillaga á heima í efh.- og viðskn. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til síðari umr. og efh.- og viðskn.