Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:56:28 (439)

2002-10-10 11:56:28# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Öryrkjar fá lægst 87 þús. kr. Geti menn unnið eitthvað eða hafi menn tekjur einhvers staðar frá t.d. úr lífeyrissjóði, sem flestir öryrkjar ættu að hafa því það er búið að vera skylda að vera í lífeyrissjóði frá 1974. (ÖJ: En þeir sem hafa aldrei getað unnið?) Það eru sárafáir sem aldrei hafa geta unnið og þeir búa í sambýlum. Þetta er því lágmark sem menn geta fengið þarna. Allir eða flestir öryrkjar hafa einhverjar tekjur til viðbótar og hafa þá meira til ráðstöfunar.

Varðandi atvinnuleysisbætur þá er atvinnuleysi á Íslandi sem betur fer nánast ekkert. Og ég er mjög stoltur af því að tekist hefur að halda því niðri. Það var í og með þess vegna sem ég bauð mig fram á sínum tíma til Alþingis, það var til að koma í veg fyrir það atvinnuleysi sem þá hafði myndast því ég tel að atvinnuleysi sé mikið böl. En þetta þarf líka að skoða vegna þess að það þarf líka að vera einhver hvati hjá fólki til að vinna. Ef atvinnuleysisbæturnar verða hærri en lægstu tekjur þá er ekki hvati til að vinna.