Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 13:39:13 (461)

2002-10-10 13:39:13# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að menn eigi ekki að rugla almenning með tölum. Við erum að ræða um þáltill. sem tekur mið af því að reyna að lækka skattbyrði þeirra sem hafa 90 þús. kr. á mánuði eða minna. Þá fer hv. þm. allt í einu að tala um 1.000 kr. lækkun á persónufrádrætti á ári. Ef þetta er ekki til að rugla umræðuna veit ég ekki hvað það er.

Það er hægt að reikna út áhrifin af því að persónuafsláttur á ári lækki um 1.000 kr. Hvað heldur hann að almenning á Íslandi muni um það, 1.000 kr. á ári? Menn eru að tala um að lækka frítekjumarkið eða persónuafsláttinn á mánuði. Ef persónuafslátturinn er lækkaður um 1.000 kr. á mánuði munar það 12 þús. kr. á hvern einstakling á ári. Fyrir 160.000 skattgreiðendur eru menn að tala um milljarða. Menn þurfa þannig að halda sig við að tala annaðhvort um mánuði eða taka sérstaklega fram að þeir séu að ræða um þetta á ársgrundvelli. Þar er mikill munur á, það eru jú 12 mánuðir í ári, eins og kunnugt er.

Svo kom hv. þm. með mjög skemmtilega hugljómun, að snjallt væri að taka upp flatan tekjuskatt. Þetta lagði ég meira að segja til. Ég var með frv. til breytinga á skattalögum. Í tvígang hef ég lagt til að taka upp flata staðgreiðslu sem þá var um 20% af öllum tekjum en í staðinn yrðu felldir niður allir frádrættir, sjómannaafsláttur og vaxtabætur og annað slíkt sem hefur ruglað kerfið mjög verulega. Ég er mjög ánægður með að hv. þm. taki þetta mál upp og ef hv. nefnd breytti þessari þáltill. í þá veru að taka upp flatan tejuskatt mundi hjartað í mér hoppa af gleði.