Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 14:12:02 (468)

2002-10-10 14:12:02# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Það er einmitt þetta, herra forseti, sem ég var að nefna. Ef við hækkum bætur Tryggingastofnunar umtalsvert og skerðum ekki lífeyri frá lífeyrissjóði, þá er það fólk komið með hærri bætur samanlagt en hinn vinnandi maður, heldur en það hafði áður en það varð öryrkjar eða fór á ellilaun. Þess vegna verðum við að skerða. Af því að menn hafa tilhneigingu til að bæta tekjutryggingu og lágmarkslífeyri almannatrygginga, þá verða menn að skerða bætur úr lífeyrissjóði. Þá lenda menn aftur í því að fólk spyr sig: Hvað fæ ég fyrir það að hafa borgað í 30--40 ár í lífeyrissjóð? Og ég hef séð dæmi þess að menn fá afskaplega lítið fyrir það. Menn sem svikust um að borga í lífeyrissjóð, því það hefur verið skylda að borga í lífeyrissjóð frá 1974 fyrir launþega og 1980 fyrir alla landsmenn, í a.m.k. 22 ár hefur verið skylda að borga í lífeyrissjóð. Þeir menn sem hafa svikist um að borga í lífeyrissjóð og fá óskertar bætur frá Tryggingastofnun eru oft á tíðum ekkert mikið verr settir og munar ekki svo miklu en hinir sem borguðu kannski í 30 ár í lífeyrissjóð 10% af launum hvert einasta ár og eru búnir að borga þrenn árslaun inn í lífeyrissjóð.

Þetta er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir. Ef við ætlum að bæta lífeyri almannatrygginga enn frekar, þá þurfum við að auka þessar skerðingar. Nema við hefðum allt saman óskert eins og sumir hafa gert kröfu til um, en þá lendum við í því að gamla fólkið og öryrkjar væru með miklu hærri tekjur en vinnandi fólk.